Fimm leiðir til þess að tileinka sér þakklæti á nýju ári

Ljósmynd: Unsplash/Angelika Agibalova

Þakklæti getur verið kraftmikið afl og reynst okkur öflugt haldreypi í gegnum erfið tímabil. Það hjálpar okkur að taka líðandi augnabliki fagnandi, einblína á það sem lætur okkur líða vel og kunna betur að meta okkur sjálf.

Það er nefnilega mikilvægt að tileinka sér sjálfsást og þakklæti í eigin garð. Á þessu nýja ári held ég að það sé góð hugmynd að áramótaheiti að tileinka sér þakklæti og setja eigin vellíðan í forgang.

Ég rakst á skemmtilega grein sem segir frá fimm leiðum til þess að tileinka sér þakklæti í daglegu lífi og þær eru eftirfarandi:

  1. Að halda þakklætis-dagbók. Skrifa niður eitthvað sem þú finnur fyrir þakklæti yfir, sem getur í raun verið hvað sem er. Íslenska vatnið, sólarupprásin, hækkandi sól, fjölskylda og vinir, sundið, tónlist, umhverfið, möguleikarnir eru óteljandi. Á erfiðum tímum hef ég nýtt mér þetta og fundið fyrir mikilli hlýju í hjartanu þegar ég man eftir öllu sem ég er þakklát fyrir. Þetta hefur enn fremur hjálpað mér að einblína á það sem skiptir mig máli.
  2. Að fara í þakklætisgöngu. Stuttur og laggóður göngutúr í fallegu umhverfi þar sem þú einbeitir þér að núvitund og hugsar með þér hvað veitir þér þakklæti.
  3. Að senda stafrænar þakkarkveðjur. Ef þú eyðir tíma á Internetinu og samfélagsmiðlum getur verið ansi öflugt að deila þakklæti, ef þér líður vel með það. Þakklæti fyrir þjónustu, ákveðna einstaklinga, vini, að hrósa og bara hvað sem er. Þetta gæti hvatt okkur og aðra til þess að tileinka okkur meira þakklæti í daglegu lífi.
  4. Að tileinka sér þakklæti í daglegu lífi. Fara yfir það sem veitir þér þakklæti áður en þú ferð að sofa getur til dæmis verið gott. Að staldra við yfir daginn og hugsa yfir hverju þú finnur þakklæti. Það gæti komið þér á óvart hvað þakklætið leynist víða.
  5. Að einblína á það jákvæða. Tilveran er troðfull af hinum ýmsu tilfinningum, neikvæðum og jákvæðum og öllu þar á milli. Auðvitað skiptir miklu máli að vera vel upplýstur og meðvitaður en þó getur það gert kraftaverk fyrir hugann að einblína á það jákvæða og leyfa voninni alltaf að vera með í heildinni. Prófaðu að tileinka þér þakklæti daglega í viku og sjáðu hvert það fer með þig.

 Frétt frá Positive News.

 

mbl.is