„Ég fíla ekki sjálfsvinnu þar sem þú reynir að vera bestur“

Kristinn Magnússon

Bókin Lífsbiblían – 50 lífslyklar, sögur og leyndarmál eftir Öldu Kareni Hjaltalín og Silju Björk Björnsdóttur kom út þann 5. janúar síðast liðinn. Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Öldu og fengu að vita nánar um hvað bókin snýst og hver hugsun hennar er á bakvið bókina.

Það vekur athygli að Lífsbiblían kom ekki út í jólabókaflóðinu eins og vinsælt hefur verið meðal bókaútgefanda og segir Alda ástæðu fyrir því.

„Af því að Lífsbiblían er svona hvatningar og innblástursbók, hún er fullkomin fyrir janúar mánuð.

Hver er tilgangur lífsins?

Það er bara ein bók sem þú átt að kaupa i janúar og það er Lífsbiblían, næst mest lesna biblían,“ segir Alda.

Í upphafi bókarinnar er strax rætt um það hver tilgangur lífsins er og segist Alda hafa viljað svara stærstu spurningunni strax í upphafi og í kjölfarið kafa dýpra inn á við.

„Ég held að það sem á mest vel við í dag, ég man ekki alveg í hvaða kafla þetta kemur fram samt, er að ég segi að ég set mér aldrei nein markmið eða áramótaheit og hverslags sjálfshjálparbók er það þegar höfundur viðurkennir bara í fimmta kafla eða eitthvað að hún setji sér aldrei nein markmið? En þetta hef ég ekki gert. Ég set mér ákveðin gildi og reyni alltaf að lifa eftir þeim. Ég hef haft sömu gildin í fimm ár þar sem ég reyni alltaf að vera einlæg í öllum samtölum og samskiptum sem ég á við fólk yfir daginn og svona og svo er ég með fjögur önnur. Svo svona þegar ég legg höfuðið á koddann á kvöldin að þá spyr ég mig einmitt: Ókei, nýtti ég öll tækifæri sem ég fékk í dag til þess að vera einlæg? Ef svarið við því er já að þá er ég að uppfylla gildin mín og lifa lífinu eftir mínum mælikvörðum,“ segir Alda.

Engin venjuleg sjálfshjálparbók

Alda er aðeins tuttugu og sjö ára gömul í dag en hún hefur lengi velt hlutum eins og tilgangi lífsins fyrir sér.

„Já mjög lengi, ég segi oft í bókinni að þetta sé engin venjuleg sjálfshjálparbók því þá væri ekki svona mikið af blótsyrðum í henni, það er alveg fyrir víst,“ segir hún.

Alda biður lesendur bókarinnar um að skrifa niður fimm gildi sem þau vilja fara eftir og biður þau svo um að reyna að fara eftir þeim.

„Já og svolítið að mæta sér á miðri leið, ég fíla ekki sjálfsvinnu þar sem þú reynir að vera bestur og allir dagar eru geggjaðir, ég fíla það ekki ég fíla meira bara svona blákaldan íslenskan raunveruleika þar sem maður mætir sér svolítið á miðri leið. Ég er engan vegin jafn dugleg í janúar og ég er í júní, bara þökk sé skammdeginu,“ segir hún.

Fimmta gildi Öldu í bókinni er setningin: Ég er nóg. Hún segir það líklega koma mörgum á óvart þar sem sú setning er líklega það sem Alda er hvað þekktust fyrir.

„En eins og ég segi, ég reyni alltaf að vera einlæg og heiðarleg og það er því miður ekki hærra en þetta. En ég er að vinna í því á hverjum degi að koma því hærra en það gengur bara eins og það gengur eins og maður segir,“ segir hún.

Alda segist aldrei hafa ætlað sér að verða fyrirlesari en fyrir þremur árum hafi það ævintýri hennar heldur betur undið upp á sig.

Aldís Pálsdóttir

„Ég hef nú verið í Hörpu, Laugardalshöll og City Field hafnboltaleikvanginum í New York síðan þannig að það varð óvart að stórum parti í mínum ferli. Þannig að ég er svona að vona að ég nái að taka allt sem ég lærði á þessum fjórum árum og síðustu átta árum sem ég hélt dagbækur sem bókin er líka byggð á með sögum af allskonar fólki sem ég hef kynnst í gegnum tíðina og ég vona að ég nái að gera því góð skil í bókinni. Rauði þráðurinn í allri bókinni er húmor og ég held það sé eitthvað sem við þurfum einmitt sérstaklega í dag núna í janúar. Þetta er sjálfsvinna seins og þú hefur aldrei séð hana áður. Þetta er sett á svona skemmtilegan hátt þannig að þetta er fyrst og fremst skemmtun til að stytta þér stundirnar í skammdeginu svo sumarið komi hraðar,“ segir Alda.

Viðtalið við Öldu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is