Æfði eins og brjálæðingur og borðaði kálsúpu í öll mál

Linda Pétursdóttir hefur margoft þurft að létta sig um ævina.
Linda Pétursdóttir hefur margoft þurft að létta sig um ævina. mbl.is/Ásta Kristjánsdóttir

Lífið með Lindu Pé er nýtt námskeið og Podcast þar sem Linda tekur að sér lífsþjálfun með áherslu á þyngdartap. Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Lindu í Síðdegisþættinum og fengu að fræðast nánar um það hvað lífsþjálfunin felur í sér.

„Í hvert skipti sem þú ert að borða milli bita þá rýkur insúlínið upp hjá þér og þá fer líkaminn í það að brenna sykur en þú vilt að hann sé að brenna fitu og ef þú ert alltaf að fá þér milli bita þá er ekki séns að þú losnir við aukakílóin,“ segir Linda.

Munur á því að vera líkamlega eða tilfinningalega svangur

Linda segir mikinn mun liggja í því að vera líkamlega eða tilfinningalega svangur. Hún segir það skipta máli hvort fólk noti frumheilann eða framheilann til þess að stjórna lífsvenjum sínum.

„Ef þú hlustar aðeins á líkamann, ertu raunverulega svangur? Er svengdin að koma úr líkamanum eða úr hausnum á þér? Þetta er bara gömul vanahegðun og þarna er það frumheilinn í þér sem er að stjórna þér en ekki framheilinn. Frumheilinn vill fá svar frá lönguninni strax. Þú ert að hugsa eitthvað sem framkallar þessa löngun og þá gargar frumheilinn á þig að þú verðir að svara henni núna strax með því að stinga þessu upp í þig en það sem ég er að kenna er að láta framheilann stjórna meira. Þú gerir það með því að læra hugsana stjórnun og framheilinn kann að búa til rútínu og vana og taka ákvarðanir sem eru bestar fyrir framtíðar sjálfið þitt,“ segir Linda.

Kálsúpukúrinn hafði mikil áhrif á líf Lindu

Linda hefur lengi skoðað hluti sem eiga að hjálpa fólki að breyta um lífsstíl. Hún minnist þess sérstaklega þegar hún var yngri og að keppa fyrir ungfrú Ísland. Þá var hún sett á kálsúpukúr sem hafði mikil áhrif á hennar líf.  

„Við erum svo oft þegar við viljum breyta um lífsstíl og losa okkur við aukakílóin þá erum við að leita að einhverjum kúrum og ætlumst til þess að einhver annar út í bæ láti okkur fá uppskriftir og kúr og við verðum bara að fara eftir honum allan daginn og megum aldrei fara út af því. Það var til dæmis eins og þessi kálsúpukúr sem ég var sett á þegar ég átti að losna við átta kíló helst á einhverjum þremur vikum eða eitthvað og þá átti ég bara að æfa eins og brjálæðingur og borða kálsúpu í öll mál. Ég gat til dæmis ekki fundið lyktina af soðnu káli í svona 15 ár á eftir. Málið er að þetta er ekkert raunhæft þú heldur þetta ekkert út. Ég er að kenna í mínum prógrömmum að þú lærir sjálf hvaða fæða hentar þér best en þú gerir það líka með hugsanastjórnun og þetta með að vera ekki stöðugt að svara löngunum með því að stinga upp í þig heldur að leyfa lönguninni til dæmis að fara í gegn án þess að svara henni með mat eða drykk. Því að hver löngun varir að hámarki í tíu mínútur en oftast eru það 60 sekúndur,“ segir Linda.

Mikilvægt að vera meðvitaður um hugsanir sínar

Linda segist vera að kenna fólki að læra að taka ákvarðanir og að standa með sjálfu sér. Nota til þess framheilann og vera meðvitað um hugsanir og langanir og að losa sig við alla þessa milli bita.

„Þegar þú ferð að vera meðvitaður um hugsanir og áttar þig líka á þessum vana, við erum oft búin að stinga upp í okkur einhverju sælgæti eða bitum án þess að pæla í því. Þannig bætum við á okkur öllum þessum auka kílóum. Það er allt í lagi að leyfa sér eitthvað en þú þarft að plana það fyrir fram, ef þú planar það fyrir fram hvað þú ætlar að borða og ef þú stendur við það þá ertu bara í góðum málum. Ef þú leyfir þér að fá þér súkkulaðiköku með rjóma þá er það allt í lagi svo framarlega sem það er ekki á hverjum degi,“ segir Linda.

Viðtalið við Lindu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist