„Leiðinlegt að vera eins og annað fólk segir manni að vera“

Ljósmynd: Sjáskot/Youtube

Tónlistarfólkið Daði Freyr og Ásdís María gáfu á dögunum út lagið Feel the Love en þetta er annað lagið sem þau gefa út saman.

Á nýársdag kom svo út myndband við lagið þar sem bæði Daði og Ásdís fara með stórt hlutverk en dansarinn George n Roses slær algjörlega í gegn í myndbandinu. Lagið er hresst og skemmtilegt og fjallar aðallega um sjálfsást.

Eins og flestum Íslendingum er kunnugt mun Daði Freyr keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision í Rotterdam á þessu ári eftir að síðustu keppni var aflýst. Bæði Daði og Ásdís gáfu sér tíma til þess að spjalla við blaðamann K100 þar sem þau deila hugmynd sinni á bak við lagið, samvinnunni og lífinu úti í Berlín á þessum skrítnu tímum. Það er ekki að sjá á þeim að nóg sé um að vera en bæði voru þau virkilega hress og í miklu fjöri þegar blaðamaður náði tal af þeim.

„Mér líður bara mjög vel sko, ég er bara búinn að hafa það næs um jólin. Svo var ég að gefa út lag og því gengur bara rosa vel,“ segir Daði.

En hver er hugmyndin á bak við lagið?

„Ég ætlaði að semja svona „klúbbabanger“ einhvern, eitthvert skemmtilegt lag fyrir klúbbinn, en svo þegar textinn fór að koma út var frekar augljóst að þessu lagi var ætlað eitthvert stærra hlutverk. Ég vissi ekki að mig vantaði að gera svona lag sem tjáði einhverja svona sjálfsást. Þetta fjallar rosalega mikið um að vera ekki að pæla í því sem annað fólk segir. Leyfa ekki annarra manna skoðunum að hafa áhrif á það hvernig þú „presenterar“ þig í lífinu. Það er ótrúlega mikið af fólki í gegnum tíðina sem hefur þótt ég vera of mikið og tala of mikið og ég eyddi svo geðveikt miklum tíma í að vilja ótrúlega mikið þóknast þeim en ekki getað það af því að ég get ekki hætt að tala svona mikið og það er leiðinlegt að vera eins og annað fólk er að segja manni að vera og þetta lag er um það,“ segir Ásdís sem byrjaði upphaflega að semja lagið án Daða.

„Svo kom ég með þetta lag til Daða og hann „put his magic into it“ og þá varð það svona æðislegt,“ bætir hún við.

Hvernig hófst ykkar samstarf?

„Við erum bestu vinir og hittumst mjög reglulega, oftast til þess að gera ekki tónlist heldur bara til þess að hafa gaman og við vorum með svona lítið „get-to-gether“ heima hjá mér þar sem það má náttúrlega ekki vera með mikið af partíum núna út af Covid og þetta var svona í eitt af fáum skiptum þar sem máttu hittast aðeins fleiri en tveir hér í Berlín. Hún spilaði þá fyrir mig „demó“ af þessu lagi og var að tala um einhvern „pródúser“ sem hún ætlaði að fá til þess að vera með í þessu lagi en ég sagði bara: „Hey, hann er ekkert að fara að vera með í þessu lagi sko,“ og fékk að troða mér inn í þetta. Svo bara hittumst við nokkrum sinnum og gerðum grunninn saman og „rest is history“,“ segir Daði.

Ljósmynd: Skjáskot/Youtube

Lítið hægt að gera í Berlín vegna Covid

Bæði Ásdís og Daði eru búsett í Berlín og aðspurð hvernig sé að vera þar eftir að Covid byrjaði segja þau það allt annað en á Íslandi.

„Það er bara „boring“ sko, það er voða lítið að frétta og maður getur gert voða lítið nema bara vera heima hjá sér að bíða eftir að þetta verði búið. Það er búið að vera miklu meira „lockdown“ þar en á Íslandi. Það var mjög skrítið að koma í sumar til Íslands og það var bara eins og það væri ekkert að gerast hérna meðan allir voru í „lockdowni“ og með grímu í Berlín og svo kemur maður hingað og já. Það liðu örugglega fjórir mánuðir af grímu„bisness“ í Berlín áður en þetta kom hingað,“ segir Daði.

„Já, mér leið eins og ég hefði verið í stríði eða eitthvað þegar ég kom til Íslands, það voru allir alveg bara: átt þú grímu sjálf? Bara já, ég á svona sjö! Þetta var svo fyndið,“ segir Ásdís.

„Já og þegar maður er hérna finnst mér svo mikið tal enn þá um það að vera með grímu og fólk er svona: „Já, maður verður víst að setja upp grímu núna,“ en maður gerir þetta bara ósjálfrátt í Berlín af því að þú getur ekki farið neitt án þess að vera með grímu,“ segir Daði.

Ásdís bætir því þá við að fólk geti jafnvel verið handtekið beri það ekki grímu úti á vissum stöðum í Berlín. „Það eru sumar götur þar sem er ólöglegt að vera ekki með grímu. Þetta er eins og ef Laugavegurinn hér væri bara með grímuskyldu þá yrði allt brjálað.“

„Já, þá hefðu einhverjir eitthvað um það að segja,“ bætir Daði við.

Ólgar allt heima hjá fólki af spenningi fyrir Eurovision

Eins og gefur að skilja hefur verið svakalega mikið að gera hjá Daða undanfarið í undirbúningi fyrir Eurovision og aðspurður hvar hann hafi fundið sér tíma til þess að semja, taka upp og gefa út lag og myndband segir hann í góðlátlegu gríni að hann hafi þurft að forgangsraða lagaútgáfum.

„Við byrjuðum náttúrlega á laginu í ágúst og þetta er alveg búið að vera svolítið ferli svo það er svolítið síðan við byrjuðum á þessu. En ég þarf bara að setja „priorities“ og strax og ég heyrði þetta lag vissi ég að þetta væri eitthvað sem við yrðum að koma út og ef það truflar Eurovision þá bara verður að hafa það, því þetta lag þurfti að gerast,“ segir hann brosandi.

Ásdís segir allt að verða brjálað hjá Íslendingum vegna spennu fyrir því að Daði stígi loksins á svið og hlakkar hún til þess að sjá hann vinna Eurovisionkeppnina.

„Það ólgar allt heima hjá fólki af Daða-„anticipation“ og það getur enginn beðið eftir að sjá hann á sviði, vinna Eurovision fyrir Íslands hönd í fyrsta skiptið. Án gríns: „bring it home, daddy, bring it home,““ segir hún.  

Kom enginn annar til greina en George

Myndbandið við lagið Feel the Love er tekið upp í Metropol-sal í Berlín auk þess sem þau notuðust við „green screen“-stúdíó. Það er María Guðjohnsen sem sér um þrívíddarteikningarnar í myndbandinu og leikstjóri myndbandsins er Mia Hennig.

„Þær eru eitthvert svona undrateymi María og Mía,“ segir Ásdís.

Dansarinn George n Roses slær rækilega í gegn í myndbandinu þar sem hann dansar um einn í Metropol-salnum og sýnir svakalega takta.

Dansarinn George n Roses
Dansarinn George n Roses Ljósmynd: Skjáskot/Youtube

„Þetta er merkileg saga, ég vissi, eða við vissum að okkur vantaði dansara, aðallega ég vissi það,“ segir Ásdís og Daði grípur fram í fyrir henni: „Mig grunaði það en hún vissi það,“ segir hann og þau hlæja bæði.

„Okkur grunaði bæði eða var farið að gruna að okkur vantaði dansara og ég fékk þá stórkostlegu hugmynd að senda á dragdrottninguna Pantsy sem heldur uppi æðislegu „showi“ hvern einasta þriðjudag hérna í Berlín. Ég sem sagt sendi henni póst og sagði henni að við værum að leita að dansara og spyr hvort hún hafi einhvern í huga sem gæti dansað fallega og „expressive“ og væri líka „fabulous“. Því við vildum einhvern „fabulous“. Hún svaraði okkur snarlega að George væri fullkominn. Við horfðum á einhver fjögur myndbönd af öðru fólki að dansa og þau urðu öll bara „irrelevant“ þegar við sáum George. Fornöfn hans eru bæði hann, hún og hán en ég held mig við hán og hán kom inn og gerði allt svona stórkostlegt bara,“ segir Ásdís.

Sjá fram á nánara samstarf í framtíðinni

Bæði Daði og Ásdís sjá fram á nánara samstarf í framtíðinni og segjast þau hvergi nærri hætt.

„Já, pottþétt, við höfum líka gert annað lag saman sem kom út á „og co“-plötunni sem ég gaf út í hittifyrra. Og svo erum við pottþétt að fara að vinna í alls konar saman, bæði örugglega að semja fyrir aðra og fyrir okkur,“ segir Daði.

„Ég sem ótrúlega mikið fyrir aðra og ég er með rosateymi með mér í Berlín og er að senda lög á fullt af frægu fólki en ég held að við Daði verðum svolítið gott teymi að semja fyrir annað fólk og fyrir bíómyndir. Ég held að það séu stórir hlutir í gangi fram undan fyrir okkur Daða og ég held að þetta sé langt frá því að vera endirinn á okkar blessaða samstarfi,“ segir Ásdís.

Mikið að gera hjá þeim báðum 

Það er margt fram undan hjá Ásdísi en hún semur eins og áður segir mikið af lögum fyrir annað tónlistarfólk, bæði íslenskt og erlent. Hjá Daða er það aðallega undirbúningur fyrir Eurovision sem hann verður á fullu í á næstunni.

„Hjá mér er allavegana Euro-undirbúningur, það er alls konar sem fylgir því. Þetta verður risapakki sko en ég ætla ekki að segja meira um það. En þetta verður svakalegt sko!“ segir hann.

„Ég er að fara í Vikuna á föstudaginn, sem er „crazy“. Það er mitt Eurovision,“ segir Ásdís.

Daði skýtur því þá inn að þess megi geta að Ásdís er einn mest spilaði íslenski „artistinn“ á Spotify með um hálfa milljón í hlustun á nokkrum vinsælum lögum eftir hana.

„Já, ég gerði lag með DJ í Berlín og það er komið með næstum því hálfa milljón hlustana og það er bara fáránlega mikið. Ég samdi svo lag með Natöshu Bedingfield um daginn sem er sjúklega stórt fyrir mig, það er rosalega gaman því ég elskaði hana svo mikið þegar ég var yngri. Svo er ég að semja ótrúlega mikið með Karen Arnhildardóttur, Young Karen, perlu Íslands. Síðan ég fékk spotify-síðu hef ég svo til næstum því daglega fengið „updates“ frá Daða með hlustanir og það er svo gaman, af því að hann er eina manneskjan sem „cares this much“. Þetta segir mér samt líka af hverju Daði er svona góður tónlistarmaður, hann er bara alltaf í vinnunni og alltaf að hugsa um þetta og aðdáendurna og að búa til „content“ fyrir fólk og hvernig gengur, hann er svo æðislegur,“ segir Ásdís.

Daði tekur í sama streng og segir Ásdísi einnig æðislega, eiginlega æðislegri.

mbl.is