Útveguðu sér búninga til þess að faðma barnabörnin

Margir sakna þess eflaust að knúsa fólkið sitt og faðmlög eru forréttindi sem ég held að fæstir taki nokkurn tíma aftur sem sjálfsagðan hlut.

Ég rakst á frétt um ömmu nokkra og afa að nafni Barbara og Clive Walshaw, sem höfðu ekki knúsað barnabörn sín í rúma níu mánuði. Þau náðu þó að bæta úr því og knúsast loksins eftir að fara fengið heldur betur frumlega og fyndna hugdettu.

Þau ákváðu nefnilega að útvega sér útblásanlega ísbjarnarbúninga með risahöfuð og því vel varin.

Hjónin segja að þessi knús hafi verið bestu sex mínútur ársins 2020. Barnabörnin, sem eru þrír strákar, 6 ára, 8 ára og 14 ára, vissu að þetta væru amma þeirra og afi klædd í ísbjarnarbúning.

Barbara og Clive höfðu verið í sjálfseinangrun mestallt árið og þótti erfitt að eyða jólunum án þess að hitta neina fjölskyldumeðlimi. Barbara rakst á þessa skemmtilegu búninga þegar hún var að versla á netinu og fékk í kjölfarið þessa frábæru hugmynd að uppblásanlegu knúsi.

Þetta vakti mikla gleði hjá öllum fjölskyldumeðlimum og þó svo að yngsta barnabarnið hafi verið örlítið hissa í byrjun, að knúsa tvo ísbirni, áttaði hann sig fljótt á því að þetta væru í alvöru amma og afi.

Aðspurð sagði Barbara að þetta væri líklega besta hugmynd sem hún hefði fengið og að sögn strákanna var þetta minning sem þeir munu aldrei gleyma. Svo krúttlegt!

Frétt frá Goodnewsnetwork.

 

mbl.is