Ekki öll forvörn góð: „Það er verið að hræða okkur“

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Sigvaldi Kaldalóns, betur þekktur sem Svali, hefur starfað í ferðabransanum á Tenerife undanfarin ár. Vegna Covid-19 og þeirra ferðatakmarkana sem veiran hefur valdið hefur verið lítið að gera hjá honum síðustu mánuði. Svali er því kominn til Íslands og mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar þar sem hann ræddi við þau Ásgeir Pál, Kristínu Sif og Jón Axel um stöðuna úti og framtíð ferðabransans á Tenerife.

„Það er rosalega skrítið af því að það er í rauninni enginn útflutningur eða neitt þannig að einu tekjurnar eru tæknilega séð bara ferðamenn, þannig séð. Þó að það sé náttúrlega þjónusta og annað í gangi fyrir þá sem eiga heima þarna, en þannig að það eru engar svona „heví“ tekjur aðrar,“ segir Svali aðspurður um stöðuna á Tenerife.  

Staðan á „hold“

Svali fór til Tenerife í haust og vonaðist hann þá til þess að geta opnað aftur á ferðamannastrauminn eftir erfiða mánuði en það gekk ekki eftir.

„Staðan er bara á „hold“. Ef allt hefði farið eins og ég ætlaði að hafa þá væri ég að fara út aftur í dag og væri svo sennilega ekkert aftur að koma heim fyrr en næsta sumar í frí og svo bara veturinn fram undan. En þegar ég fór út núna þá vorum við að tala við birgjana okkar sem eru þá aðilar sem við vorum að vinna með. Bara hvort þeir séu á lífi og hvað er að frétta af hótelunum, er hægt að bjóða upp á meira en það sem við höfum verið að gera. Þá þegar ég er úti fer allt að gerast í veröldinni aftur, allt fer að versna í Bretlandi og í Belgíu. Þá sá maður alveg svart á hvítu, það var 2. nóvember, þá opnuðu þeir fyrir Breta og þá kom tveggja vikna „períóda“ og þá var, athugið, meðallendingafjöldi á dag 90 vélar,“ segir hann.

Mörg fyrirtæki geti ekki opnað aftur

Svali segir ástandið á Tenerife ekki gott. Hann sér fram á að mörg fyrirtæki muni ekki geta opnað aftur í kjölfar Covid en að þá muni aðrir aðilar taka við í staðinn.

„Það er rosalega mikið af stórum keðjum þarna sem margar hverjar ráða við þetta en ekki allar. Það eru mörg fyrirtæki sem eru ekki að fara af stað aftur þegar allt verður opnað, það koma þá bara einhverjir nýir inn, það er alveg á hreinu. Fullt af hótelum sem ætluðu að opna opnuðu ekki og voru til dæmis ekki opin um jólin og eina ástæðan fyrir því var að það var alltaf verið að hlaupa fram og til baka. Þegar stjórnvöld voru að ákveða sig, opnuðu kannski og svo þremur vikum seinna var hert aftur á alls konar reglum, og það er svo dýrt fyrir hótelin að gera þetta. Nýbúið að ráða fólk og fá alla inn og á ekkert treystandi. Þannig að það er bara betra fyrir þau að hafa lokað. Ef þau hafa lokað þá er ekkert nóg fyrir stjórnina að segja: heyrðu við ætlum að opna, af því að það er ekki nóg af hótelum og svo framvegis,“ segir hann.

Léleg aðstoð frá stjórnvöldum

Svali segir stjórnvöld styðja við bakið á ferðamannaiðnaðinum en viðurkennir að aðstoðin sé ekki nógu góð.

„Það er ofboðslega lélegt. Ef ég nota hreina og beina íslensku, það er bara mjög lélegur stuðningur, þeir hafa bara ekki pening í það,“ segir hann.

Einhver smit virðast vera á Tenerife og segir Svali þau fleiri en hérna á Íslandi. Það séu þó engin smit á hinum eyjunum í kring. Níutíu Íslendingar ferðuðust til Tenerife um jólin en Svali bjóst við fleiri ferðamönnum héðan.

„Við áttum von á því að það væru svona fjórar til fimm vélar, við vorum alveg pottþéttir á því og þá hefði ég verið úti um jólin að vinna. En svo var það orðið ljóst að það komu bara fréttir af fleiri smitum og fleira og það kom ein frétt um aukin smit og það var alveg nóg til þess að það hrundu inn afbókanir,“ segir hann.

Vonast til þess að bóluefnið lagi hugarástand fólks

Svali segir að þrátt fyrir allt ætli fjölskylda hans að búa áfram á Tenerife þegar Covid sé yfirstaðið.

„Það sem ég er vongóður með við þetta bóluefni að það lagi hugarástand fólks. Það sem mér finnst svo leiðinlegt í þessu öllu, og þetta er alvarlegur sjúkdómur ég dreg ekkert úr því og hann er smitandi, að þá er staðan þannig að allt sem er sagt er gert til þess að vara okkur við og það er verið að hræða okkur, það er ekki markmiðið en það er verið að biðja okkur að passa okkur en það sem hefur gerst í leiðinni, ég ætla ekki að segja markvisst en það virkar þannig að það er verið að ýta öllu svona sjálfstrausti til hliðar og það er verið að gera þig smeykan við ástandið sem er sumpart gott en það er ekki gott í það heila vegna þess að það besta sem maðurinn hefur til þess að efla sjálfan sig er bara sjálfstraust og von og það gerir það að verkum að þú ert heilbrigðari fyrir vikið. Þannig að öll þessi forvörn er alveg góð en hún er líka slæm. Það er búið að prenta svo inn í okkur að þetta sé ekki gott, þetta sé ekki gott, og þá er náttúrlega ekkert gott,“ segir hann.

Viðtalið við Svala má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist