„Það er ekkert hægt að sparka mikið meira í okkur“

Jóhannes Ásbjörnsson.
Jóhannes Ásbjörnsson. Eggert Jóhannesson

Jóhannes Ásbjörnsson fékk Covid í aðdraganda jóla og endaði á spítala. Hann mætti til þeirra Sigga Gunnars og Loga Bergmanns í Síðdegisþáttinn og deildi því með þeim hvernig það var að vera í tuttugu daga einangrun og fárveikur.

„Maður var búinn að fylgjast með þessu allt árið og eins og margir lýsa þessu, þetta er alltaf einhvern veginn í kringum mann en ég þekkti ekkert eitthvað marga sem höfðu fengið þetta. Þetta var einhvern veginn ekki búið að höggva nærri heimahögum. Svo bara þarna í lok nóvember þá smitast frúin. Og sko „you can't live with them, can't live without them“, þannig að hún ber þetta heim,“ segir Jóhannes og þeir skella allir upp úr.

Steinlá í fimm sólarhringa

„Hún ber veiruna í hús sú gamla og veiktist aðeins og var alveg með netta flensu í nokkra daga og við förum öll í sóttkví þarna 25. nóvember og við létum mæla okkur strax, við eigum þrjú börn og allir „clean“. Þannig að við hugsuðum: jæja, bara halda kellingunni inni í herberginu og hleypa henni ekkert út og bara sigla í gegnum þetta. En svo bara nokkrum dögum seinna þá fór mér að líða eitthvað illa og ég fór eitthvað að veikjast og svo bara búmm og þá steinlá ég í fimm sólarhringa,“ segir Jóhannes.

Jóhannes segist hafa verið í fínu standi fyrir smitið, ónæmiskerfið gott og hann aldrei veikur.

„En ég held að það séum einmitt við, sem verðum aldrei veik, að þegar þetta kemur þá bara ... og ég lá bara þarna með mikinn hita í fjóra, fimm sólarhringa og svo hélt ég að ég væri bara orðinn góður. Og við Olla heima og öll börnin og allir að reyna að verða ekki geðveikir og á öðrum degi þá var ég orðinn helvíti reffilegur og bara: jæja, nú förum við í geymsluna,“ segir hann og hlær.

„Þú ert alltaf að leita að einhverju að gera. Bara verkefni og þetta er svona háaloftsgeymsla þannig að ég var í fimm tíma með frúnni að bera kassa upp og niður og bara hrikalega reffilegur á því, svo bara um kvöldmat þá bara: heyrðu, það er eitthvað að, og ég lagðist kominn með 39,5 bara á klukkutíma og þá kom þetta. Þá komu sko sex sólarhringar og ég mallaði bara í 40 stigum allan tímann,“ segir hann.

Þvaðraði um þríhyrninga sem pössuðu ekki saman í óráði

„Eina nóttina þá heyrir Olla eitthvað og vaknar upp og kemur niður og ég er með svona lítið „mancave“ niðri þannig að ég gat einangrað mig þar. „Mancave-ið“ er tengt bílskúrnum þannig að ég gat nýtt það svæði og vafraði þar um. Mátti ekkert fara fram, fékk bara matinn á bakka. En hún vaknar þarna eina nóttina og heyrir eitthvað svona skrítið niðri og kemur niður og þá er ég bara með óráði þvaðrandi og ég man ekkert eftir þessu og mér varð tíðrætt um einhverja þríhyrninga sem pössuðu ekki saman og var ósáttur við það. „No joke“, bara liggjandi í svitabaði og þá hringdi hún niður eftir og þá komu þeir að sækja mig. Ég var bara „out of it“, ekki með rænu. Þeir tóku blóðprufu og gerðu röntgen á lungum og mettun í blóði, það var ekkert að mér og ég fór aftur heim, þetta bara gerir söguna betri,“ segir hann og hlær.

Olla, eiginkona Jóhannesar, upplifði tíu daga af kúkalykt og kúkabragði af öllu, sem breyttist svo yfir í reykingalykt.

„Svo þessi veira er bara prakkari. En ég hef ekki fundið neitt svoleiðis, ég er bara „out“, finn ekki neitt.

Ekki rætt um neitt annað

Jóhannes viðurkennir að hann sé enn eftir sig og að líklega verði hann aumur í einhvern tíma.

„Svo talar maður ekki um neitt annað, það er eins og maður sé langveikur. Þetta er það eina sem er rætt. Og svo ef maður fer út í göngutúr, ég fór í stuttan göngutúr í hverfinu í gær og ég er með harðsperrur,“ segir hann.

Jóhannes losnaði úr einangrun 20. desember eftir að hafa verið í tuttugu daga í einangrun og þar af ellefu daga virkilega veikur. Fjölskyldan gat því haldið jól en hvorugt þeirra fann bragð af jólamatnum.

„Það var fínt að loka árinu, toppa þetta áhugaverða ár og núna er í raun ekkert sem getur gerst hjá okkur. Við erum að biða eftir bóluefni og svona og ég er alveg sannfærður um að það kemur fyrr en við höldum. Kári á eftir að landa þessu og trylla þessu heim. En sama hvað gerist; allt úr þessari stöðu núna er skref upp á við. 21 verður bara, það er ekkert hægt að sparka mikið meira í okkur. Þetta eru alltaf lítil græn ljós sem eru að fara að kvikna. Í mínu tilfelli segi ég bara: við lifðum af, það kemur nýtt ár og þá er þetta bara einn stór lærdómur og við verðum bara að líta svoleiðis á það. Ég hlakka svo til þessa árs, þetta verður svo skemmtilegt ár. Þetta verður peppað ár og tryllt sumar,“ segir hann.

Viðtalið við Jóhannes má hluta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist