Skrifar um kynlíf og morð en er sjálf með lítið hjarta

Ljósmynd: Aðsend

„Það hefur alltaf verið draumur minn að verða rithöfundur. Frá því ég var krakki hef ég skrifað sögur, ljóð, meira að segja leikrit. Það eru til heilu pappakassarnir af stílabókum frá því ég var í skóla, stútfullar af sögum,“ segir Ingibjörg Katrín Kristjánsdóttir þáttastjórnandi hlaðvarpsþáttanna Illverk. Ingibjörg, eða Inga eins og hún er alltaf kölluð, gaf á dögunum út sína fyrstu bók í fullri lengd og réðist Inga ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.

Um er að ræða glæpasöguna Illverk en hana skrifaði Inga á aðeins sex vikum. Hugmyndina að bókinni fékk Inga út frá áhuga sínum á glæpum og þeim sem þá fremja.

Hefur alltaf ætlað sér að skrifa bók

„Ég hef ekki beint áhuga á glæpunum sjálfum, heldur persónunum á bak við glæpina – hugsanir þeirra og raskanir. Ég hafði því ansi gaman að því að skapa persónur fyrir bókina og notaðist við alla þá þekkingu sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Í rauninni hef ég alltaf ætlað mér að skrifa bók, en þessi tiltekna hugmynd hafði blundað í mér í nokkra mánuði.

Bók Ingu hefur fengið góð viðbrögð.
Bók Ingu hefur fengið góð viðbrögð. Ljósmynd: Aðsend

Það tók rúmar sex vikur að skrifa hana, ég gat ekki hætt. Þegar söguþráðurinn var kominn, þá skrifaði ég stanslaust. Karakterarnir, baksögur þeirra og aðstæður birtust bara fyrir augum mér. Ég varð aftur að litlu Ingu, sem gat skrifað sögu á korteri, á meðan það tók aðra krakka heilan dag. Ég hef alveg ofsalega gaman af þessu og þetta er klárlega mín helsta ástríða,“ segir Inga.

Hefur áhuga á því sem er erfitt að útskýra

„Ég hef alla tíð haft gríðarlegan áhuga á öllu sem er erfitt að útskýra. Ef þið mynduð skoða history á YouTube hjá mér, mynduð þið fatta hvað ég á við. Þar horfi ég á Hoarders, extreme cleaners, vídeó um sálfræði, geðraskanir, glæpi. Ég elska að stúdera hvernig fólk hugsar, af hverju það gerir það sem það gerir. Hvað er til dæmis öðruvísi við Ted Bundy og Kalla útí bæ? Kalli myndi aldrei drepa konur en Ted Bundy gerði það með ánægju – hvað er það nákvæmlega sem gerir fólk eins og það er.

Það er alls ekki blóðið og hrollvekjan sem heillar mig, eins og í hlaðvarpsþáttunum mínum illverk, þá fer ég yfir æsku glæpamannanna, sem hafa flestir farið í gegnum hræðileg uppvaxtarár. Ég skoða það miklu meira en að lýsa því nákvæmlega hvað þeir gerðu, ég vil finna út af hverju þeir gerðu það.

Ég stalst fram á kvöldin og horfði á Sönn íslensk sakamál þegar ég var krakki, eitthvað sem ég mátti alls ekki, mér þótti þetta svo ótrúlega áhugavert.

Þetta hefur alls ekki skaðað mig neitt, ég óttast ekki neitt sérstakt, þrátt fyrir alla þessa hrollvekju sem ég hef lesið um, ætli þetta hafi ekki kennt mér frekar. En ég hef alltaf farið voðalega varlega og er yfirleitt með agnarsmátt hjarta, sem er ansi kaldhæðnislegt,“ segir Inga .

Óttaðist álit annarra

Inga segist hafa skrifað alla sína ævi. Bæði hefur hún haldið úti bloggi, skrifað stuttar sögur og leikrit þegar hún var yngri en Illverk er fyrsta stóra skáldverk hennar.

„Fyrst þegar ég byrjaði óttaðist ég um álit annarra. Ég er ofsalega óritskoðuð týpa, oft voðalegur sóðakjaftur með svaðalegt ímyndunarafl. Ég óttaðist að fólk héldi að ég væri skrítinn, hugsaði jafnvel: „Er þessi ekki eitthvað klikkuð að skrifa svona.“ Þar sem ég skrifa kynlífssenur, morð og ýmislegt sem fer kannski fyrir brjóstið á fólki. Með hjálp unnusta míns hélt ég samt áfram, passaði að vera ég og að skrifa nákvæmlega það sem ég vildi skrifa. Um leið og ég fékk trúnna á sjálfri mér, hætti þetta að vera erfitt og varð mitt helsta áhugamál,“ segir hún.

Inga vissi strax að hana langaði til þess að láta söguna gerast á Eskifirði enda segir hún fjörðinn fallegasta stað landsins. Að því undanskildu var sagan alls ekki fullmótuð þegar hún hóf skrifin.

„Ég vissi að mig langaði að hafa hana fáránlega spennandi. Ég í rauninni bjó til fjölskylduna sem spilaði aðalhlutverkið og spann frá kafla til kafla. Söguþráðurinn kom hægt og rólega til mín og ég gleymi ekki tilfinningunni þegar ég las hana þegar ég hafði lokið við skrifin. Allt small svo vel saman, það var geggjuð tilfinning og ég náði að gera sjálfa mig spennta! Þetta er ótrúleg tilfinning,“ segir hún.

Gátu ekki lagt bókina frá sér

Inga segist hafa fengið ótrúlega góð viðbrögð við bókinni og að margir hafi greint henni frá því að þau gætu ekki lagt hana frá sér.

„Ég hef fengið mörg skilaboð frá fólki sem segist ekki hafa getað lagt hana frá sér. Það varð að lesa einn kafla í viðbót og enduðu á að klára hana á tveimur kvöldum. Það er nákvæmlega markmiðið mitt, ég vildi hámarks spennu. Það er svo dásamlegt að fá þessi skilaboð frá fólki, það hvetur mig svo sannarlega til að halda áfram að gefa út efni sem ég sit á,“ segir hún.

Inga áritar eintök af bókinni.
Inga áritar eintök af bókinni. Ljósmynd: Aðsend

Bók Ingu fjallar um Sigurveigu sem missti eiginmann sinn í hörmulegu vinnuslysi. Henni sárnaði við það að fá ekki að kveðja eiginmann sinn almennilega og tekur því upp á því að grafa líka hans upp í skjóli nætur. Sigurveig kemst þá að því að líkið var alls ekki af eiginmanni hennar. Þá er gamalt mál tekið til rannsóknar á ný þegar ungur drengur rekst á mannabein í grunni húsarústa á Eskifirði. Við uppgröftinn finnast líkamsleifar þeirra sem saknað hafði verið í áraraðir ásamt dagbók Sigurveigar, og áttu skrif hennar eftir að varpa ljósi á ýmis svik, leyndardóma og djúp ástarmál.

Hörðustu gagnrýnendur landsins

Þrátt fyrir að halda úti hlaðvarpsþáttunum Illverk og að skrifa glæpasögu í fullri lengd ákvað Inga að takast á við annað stórt verkefni þar sem hörðustu gagnrýnendur landsins hlusta á hana, börnin.

„Illverk krakkar er nýjasta verkefnið mitt, sem ég er alveg ofsalega spennt fyrir. Þegar ég var lítil og horfði á Ástu og Kela lét ég mig dreyma um að einn daginn myndi ég stýra þeim þætti. Ég dýrka börn, mér finnst þau svo skemmtileg og óritskoðuð. Þegar þau hlægja að bröndurunum þínum þá er það svo einlægt og ef þú ert að segja frá einhverju leiðinlegu – þá segja þau frá því.

Ég tók svo eftir því einn daginn að það er ekkert podcast fyrir krakka, sem er algerlega geggjaður markhópur fyrir þetta nýja trend sem er að tröllríða íslandi. Það eru örugglega til fimmtíu podcöst fyrir fullorðna, en ekkert fyrir krakkana, okkar besta fólk. Þetta er einmitt tíminn sem foreldrum vantar dægrastyttingu fyrir krakkana sína, ég ætlaði ekki að nefna þetta, en við vitum öll hvað ég er að tala um. Covid, það er búið að vera svo lítið fyrir þau að gera og í staðinn fyrir að horfa á sjónvarpið og leika sér í símanum, datt mér í hug að podcast væri fullkomið,“ segir hún.

Ýtir undir ímyndunarafl krakkanna

Illverk krakkar eru þættir fyrir krakka á aldrinum þriggja til þrettán ára. Þar ýtir Inga undir ímyndunarafl krakkanna, fræðir þau og segir skemmtilega brandara.

„Í þáttunum koma fram hinir ýmsu karakterar – sá allra vinsælasti er Draugsi Dúlla. Hann segir ekki margt, en er alveg ofsalega skemmtilegur og hef ég fengið aragrúa af teikningum frá listamönnum sem blésu í hann lífi með teiknihæfileikum sínum.

Svo er það Dimma Díma, hún táknar myrkrið og nóttina – hún syngur um það hversu mikilvægt það sé að hvíla augun og að krakkar þurfi ekki að óttast hana – Gunna einkaspæjari er svo ung stúlka sem elskar að rannsaka, leysa ráðgátur og nær að gera ráðgátu úr hinum eðlilegustu aðstæðum.

Ég elska fátt meira en að gera þessa þætti, ég gjörsamlega dýrka það. Brandarahornið, samtölin sem ég á við sjálfa mig þegar ég er að leika hina ýmsu karaktera – ég geng alltaf út úr stúdíóinu með bros á vör,“ segir hún.

Inga segist hafa nóg á prjónunum fyrir árið 2021. Hún sé þegar byrjuð að skrifa nýja bók, Illverk þættirnir hennar halda áfram sinni vegferð og svo er hún að vinna í tveimur spilum sem munu tengjast þáttunum.

Hægt er að fylgja sérstökum Illverk hópi á Facebook með því að smella hér.

mbl.is