Stökk út í djúpu laugina með jólatónleikana

Sigga Beinteins.
Sigga Beinteins. Ásdís Ásgeirsdóttir

Ein ástsælasta söngkona okkar Íslendinga, Sigga Beinteins, heldur jólatónleika sína „Á hátíðlegum nótum heima með þér“ annað kvöld klukkan 20.

Tónleikarnir hafa verið haldnir í Eldborgarsal Hörpu undanfarin tíu ár fyrir fullu húsi og í ár ætlar Sigga ekki að gefa neitt eftir.

Sigga mætti í viðtal til þeirra Loga Bergmanns og Sigga Gunnars í Síðdegisþáttinn í gær þar sem hún ræddi við þá um aðdraganda tónleikanna ásamt fleiru.

Kostnaðurinn kominn í ellefu milljónir

„Ég ákvað að henda mér svolítið út í djúpu laugina og er sú fyrsta sem ríð á vaðið með þessa streymis jólatónleika,“ segir Sigga og viðurkennir að smá stress hafi gert vart við sig enda geti hún ekki vitað hvernig staðan á miðakaupum er.

„Ég get nú ekki annað sagt en að það sé smá hnútur af því að það er auðvitað rosalegur kostnaður að gera þetta og ég er nú þegar komin með kostnað upp á næstum því ellefu milljónir. Ég þarf náttúrulega að taka inn heilt kvikmynda „crew“ og það er mikið af fólki sem kemur í kringum þetta, leikstjóri og annað,“ segir hún.

Umgjörð tónleikanna verður sú sama og undanfarin ár, alveg fyrsta flokks og engu verður til sparað við að gera upplifunina einstaka. Þá verða gæði útsendingarinnar bæði hvað varðar mynd- og hljóðvinnslu á heimsmælikvarða.

Stendur ein á bakvið tónleikana

Sigga stendur í raun alveg ein á bakvið tónleikana og segir hún mikilvægt að fólk komist út úr Covid hugsuninni og inn í jólastemninguna.

„Við tókum áhættuna á að gera þetta en ég náttúrulega stend samt alveg ein að þessu og er að gera þetta. Ég ákvað eftir svona smá umhugsun að fara út í þetta. Ég var búin að aflýsa tónleikunum mínum en svo kom Harpan að máli við mig um hvort ég myndi vilja kíkja á það að gera þetta í svona streymi. Ég held að það veiti ekki af því að fara að hugsa um jólin og komast út úr þessari Covid hugsun, fólk er orðið þreytt og nú þurfum við bara að slaka á, hafa það kósí og setjast niður með kakó og horfa á jólatónleika og hafa gaman,“ segir hún.

Sigga Beinteins er ekki komin með leið á jólunum.
Sigga Beinteins er ekki komin með leið á jólunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Siggu hlakkar mikið til þess að koma fram en viðurkennir þó á sama tíma að líklega verði stemningin svolítið skrítin.

„Þetta verður alveg æðislega skemmtilegt kvöld en það verður svolítið skrítið að þurfa að standa fyrir framan tóman sal í Eldborg eins og hann er nú stór og ekkert klapp. Það er nú „feedbackið“ sem að yfirleitt gefur manni mikið svona til að geta aðeins ruglað og sprellað,“ segir hún og hlær.

Gerir ráð fyrir því að fólk klappi heima 

Sigga segist þó ætla að hafa húmor fyrir þessu sjálf og gera ráð fyrir því að fólk sé heima að klappa á milli laga.

„Maður er varla búin að hafa vinnu síðan í mars og allt það fólk sem er í kringum mig á tónleikunum er líka allt fólk sem hefur ekki verið í vinnu. Bæði tæknifólk, hljómsveitin, söngvarar og annað þannig að þau eru svona með mér í þessu að taka áhættuna með þetta og kýla á þetta og ég bara óska þess og vona að þetta gangi ég er allavegana með öll sömu herlegheitin og ég hef verið með undanfarin ár,“ segir hún.

Sérstakir gestir Siggu á tónleikunum eru Friðrik Ómar, Jógvan Hansen, Ragnheiður Gröndal og Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú).

Hvernig þú kaupir miða:

Tónleikarnir eru aðgengilegir á leigunni hjá Vodafone og Símanum og þú kaupir aðgang rétt eins og þegar þú leigir mynd eða sjónvarpsþátt og greiðslan fer á símareikninginn hjá þér. Miðaverð er 3900 krónur. Hjá Vodafone finnurðu tónleikana undir „Viðburðir“ en hjá Símanum í Síminn Bíó.

Þeir sem ekki eru með myndlykil og/eða kjósa frekar að horfa á streymi í vafra í tölvu eða öðrum snjalltækjum geta keypt miða inn á Tix.is með því að smella hér.mbl.is