Samkynhneigðu karlkyns mörgæsirnar taka að sér annað egg

Samkynhneigða karlkyns mörgæsaparið Sphen og Magic hafa vakið alheimsathygli undanfarin ár eftir að þeir ættleiddu egg sem foreldrarnir höfðu hafnað. Mörgæsirnar, sem búsettar eru á sædýrasafninu í Sydney, lágu þá á egginu og hjálpuðu því að klekjast í lítinn unga að nafni Lara.

Lara er nú vaxin úr grasi og hefur stofnað sína eigin fjölskyldu, en Sphen og Magic eru orðnir feður í annað skipti eftir að hafa aftur tekið að sér egg sem foreldrarnir sinntu ekki. Eru þessir kraftmiklu pabbar eina samkynhneigða par sædýrasafnsins og hafa þeir verið óaðskiljanlegir frá árinu 2018.

Jafnréttissamtökin Equality Australia deildu fréttunum þar sem þau óskuðu mörgæsapöbbunum til hamingju með nýja ungann. Samtökin ítrekuðu að þau myndu halda áfram að leggja sig mikið fram við að útrýma fordómum fyrir allar regnbogafjölskyldur en sögðu fallegt og mikilvægt að fagna tilkomu ungbarna í LGBTQ-samfélaginu, jafnvel þó að um mörgæsir væri að ræða.

Svo krúttlegt og skemmtilegt og áfram alls konar ást!

Frétt frá Upworthy.

 

mbl.is