Gefðu lag með lifandi tónlistarflutningi

Í dag eru 22 dagar til jóla og þetta óvanalega og fordæmalausa ár flýgur hjá, jafnvel þó að á sama tíma hafi það verið ansi langt. Svona getur tíminn verið skrýtinn.

Jólin verða með öðru sniði í ár en þrátt fyrir það koma jólin alltaf.

Ég rakst á mjög skemmtilegt verkefni á samfélagsmiðlinum instagram í gær undir nafninu Gefðu lag.

Þar er hægt að panta tónlistaratriði og gefa ógleymanlega jólakveðju til fólksins síns, með því að gefa lag með lifandi flutningi.

Þeir Ari Bragi Kárason trompetleikari og Kjartan Valdemarsson harmonikuleikari standa fyrir verkefninu og gefa fólki kost á að panta hjá þeim atriði þar sem þeir mæta til fólks og taka lagið, í góðri fjarlægð.

Aðspurður segir Ari Bragi að hugmyndin hafi kviknað hjá þeim Kjartani því þá langaði til þess að gera eitthvað sniðugt og jólalegt fyrir jólin, sem á sama tíma gæti dreift gleði til annarra.

Enn fremur er lítið að gera hjá tónlistarmönnum á þessum áður annasama tíma og engir jólatónleikar fyrir þjóðina. Því er þetta virkilega skemmtilegt framtak og tónlistarupplifun alltaf dásamleg gjöf.

www.gefdulag.com

 

mbl.is