Útbýr poka með nauðsynjavörum fyrir heimilislausa

Bethany Moultry er sex ára stúlka frá Georgíuríki í Bandaríkjunum. Undanfarið ár hefur þessi unga og duglega stelpa unnið að því að styðja við heimilislausa í heimabæ sínum Savannah.

Bethany brennur fyrir réttlæti og ásamt móður sinni þróaði hún hugmyndina Bethany’s Happy Bags, eða Hamingjupokar Bethany.

Pokarnir eru fylltir af nauðsynjavörum, teppum og hlýjum fötum og fara þeir beint til heimilslausra íbúa bæjarins. Móðir Bethany er afar stolt af dóttur sinni og segir hana mjög staðfasta í verkefninu. Þegar Bethany fagnaði sex ára afmæli sínu og var spurð hvað hún vildi í afmælisgjöf óskaði hún sér einungis meira af vörubirgðum fyrir hamingjupokana.

Þegar verkefni Bethany breiddist út lögðu heilmargir hönd á plóg og hafa sent til hennar ýmsar vörur sem óskað var eftir.

Skólar og yfirvöld hafa aðstoðað við að setja vörur saman í poka og koma þeim á rétta staði. Hingað til hefur Bethany sent yfir 750 hamingjupoka og er verkefnið rétt að byrja.

Virkilega fallegt og það er svo skemmtilegt hvað yngri kynslóðir geta veitt manni mikinn innblástur til þess að gera betur.

Frétt frá Upworthy.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist