Mæta í ofurhetjubúningi á Barnaspítala Hringsins

Dagur Lárusson og Úlfar Konráð Svansson hafa undanfarið ár verið að skrifa bókina „Landverðirnir“ sem fjallar um ofurhetjurnar Atlas og Avion. Með fram því að skrifa bókina hönnuðu þeir Dagur og Úlfar ofurhetjubúninga og boli með mynd af aðalsöguhetjunum.

Þeir mættu í viðtal til þeirra Loga Bergmanns og Evu Ruzu í síðdegisþættinum í gær og sögðu þeim frá hugmyndinni á bak við bókina ásamt því að ræða við þau um heimsóknir þeirra á Barnaspítala Hringsins.

Gefa krökkunum boli og bækur

„Þetta er náttúrlega búið að vera öðruvísi af því við megum auðvitað ekki fara inn að heimsækja krakkana þannig að við höfum fengið að fara út í garð fyrir utan Barnaspítalann, þar sem gluggarnir á herbergjunum hjá krökkunum snúa út í garðinn, og þar höfum við verið að vinka þeim og svo höfum við einnig fengið að gefa þeim gjafir, létum útbúa boli með mynd af karakterunum á og fengum að gefa börnunum bolina ásamt bókinni sjálfri,“ segja þeir.

Hugmyndina að bókinni fengu þeir eftir að hafa fylgst með fræga fólkinu frá Hollywood vera að heimsækja börn á barnaspítala í ofurhetjubúningum.

„Þetta hvatti okkur svo mikið að við hugsuðum bara: Af hverju er ekki til svona séríslenskt dæmi? Bara ofurhetjur, sem eru jú ofurhetjur í sögunum og bjarga málunum en eru líka að gera góðverk í alvörunni. Þannig að það var svona eiginlega grunnhugmyndin á bak við þetta,“ segja strákarnir.

Viðtalið við Dag og Úlfar má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:  

 

mbl.is