Ánægð með ábyrgðina sem Dolly sýndi

Stórsöngkonuna Dolly Parton þarf vart að kynna en hún hefur aldeilis verið að gera frábæra hluti að undanförnu.

Síðastliðinn fimmtudag héldu Bandaríkjamenn upp á þakkargjörðina og bauð Dolly fólki heima í stofu upp á óvænta og glæsilega tónleika, sem hluta af þakkargjarðarskrúðgöngu vöruhússins Macy’s.

Dolly tók þá ábyrgu og flottu ákvörðun að fljúga ekki til New York og koma fram þar sem skrúðgangan var haldin. Hún tók frekar lagið heiman frá sér fyrir framan skjávarpa með mynd af veitingastaðnum Cracker Barrel í Nashville, Tennesee, og náði svo sannarlega að dreifa jólagleðinni með hinum ýmsu jólasmellum.

Skrúðgangan var einnig laus við þátttakendur og var henni einungis streymt heim til fólks til þess að koma í veg fyrir hópamyndun.

Aðdáendur Dolly Parton voru virkilega ánægðir með þessa dásamlegu tónleika og lofuðu söngkonuna fyrir það að vera ábyrgðarfull og að halda stórkostlega tónleika.

Vanalega er þessi stóri viðburður þakkargjörðarhátíðarinnar skipulagður 18 mánuði fram í tímann, en þrátt fyrir óvanalegt ár og fordæmalausa tíma tókst þetta ótrúlega vel og náði að gleðja heilmarga, á öruggan hátt.

Frétt frá Upworthy.

mbl.is