Stofnaði góðgerðarsamtök aðeins átta ára gamall

Treandos Thornton er aðeins átta ára en er nú þegar orðinn mikill frumkvöðull. Hann stofnaði fyrirtækið T&N Bow Tie ásamt fimm ára bróður sínum Noah.

Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði eftir að hann hafði oft séð föður sinn, sem vinnur sem uppistandari, setja á sig slaufu fyrir gigg.

Strákarnir selja slaufurnar til þess að safna peningum fyrir börn sem skortir mat og leikföng. Sendingarþjónustufyrirtækið UPS heyrði af þessu frábæra framtaki og vildi leggja þeim lið með því að vekja athygli á málefninu.

UPS bað strákana í kjölfarið að hjálpa til við herferð þeirra „Wishes Delivered“, árlegt góðgerðarverkefni fyrirtækisins, þar sem þeir láta nokkrar óskir rætast hjá samfélögum sem þurfa á hjálp að halda.

Fyrirtækið kom strákunum enn fremur skemmtilega á óvart þar sem þeir keyrðu troðfullan sendibíl af matvörum og leikföngum til góðgerðarsamtakanna United Food Force og var sendingin í nafni fyrirtækis drengjanna, T&N Bow Tie.

Bílstjórar UPS fengu svo gylltar slaufur að gjöf frá strákunum, sem þeir bera vel í vinnunni. Frábært framtak og kraftmikið samstarf. Ég hlakka að fylgjast með þessum góðhjörtuðu strákum í framtíðinni.

Frétt frá Upworthy.

 

mbl.is