Mikið af áhugaverðu sjónvarpsefni er væntanlegt á Netflix og aðrar streymisveitur á næstunni en bíósérfræðingurinn Björn Þórir Sigurðsson eða Bíó-Bússi stiklaði á stóru um þetta í morgunþættinum Ísland vaknar á K100.
Kvikmyndir og þættir sem komu út 26. nóvember:
The Flight Attendant – Miniseries HBO Max:
Kaley Cuoco úr Big bang theory leikur flugfreyju sem kynnist huggulegum manni í vélinni á leið til Taílands. Þau eiga notalega kvöldstund og enda svo uppi á hótelherbergi hans. Daginn eftir vaknar hún og huggulegi maðurinn hefur verið myrtur og hún man ekkert. Byggt á mestölubók Chris Bohjalians. Spennu/grín-mínísería.
Mosul – Netflix-bíómynd:
Byggt á raunverulegum atburðum. Myndin fjallar um Nineveh, víkingasveit írösku lögreglunnar, sem safnaði liði og náði borginni Mosul til baka úr höndum Isis. Framleiðendur myndarinnar eru Russo-bræðurnir sem leikstýrðu Avengers – Endgame.
12 Dates Of Christmas – HBO Max:
Stefnumóta-raunveruleikaþáttur í jólagír. Sex einstaklingar reyna að finna ástina fyrir jólin.
Superintelligence – HBO Max og í bíó:
Öflug gervigreind sem hljómar eins og James Corden velur meðaljóninn Carol Peters, sem leikin er af Melissu McCarthy, sem viðfangsefni sitt.
Fatman – Bíómynd itunes og væntanleg í bíó:
Mel Gibson leikur sveinka sem á ekki sjö dagana sæla. Hann er kominn í samvinnu við herinn til að bregðast við minnkandi bissness og svo þarf hann að takast á við leigumorðingja sem ráðinn var af 12 ára dreng sem var verulega ósáttur við að fá kolamola í skóinn.
Let him go – bíómynd – iTunes:
Kevin Costner og Diane Lane leika hjón sem missa son sinn og þurfa síðan að fara og bjarga barnabarni sínu úr klóm hættulegrar fjölskyldu sem býr afskekkt (of the grid). Hörkumynd þar sem Costner fer á kostum.
Kvikmyndir og þættir sem komu út 27. nóvember:
Virgin River: Netflix – önnur þáttaröð:
Hversu mikið drama getur smábærinn Virgin River boðið upp á?
Greinilega nóg, trúlofanir, fæðingar, ástarsorg og morð.
Überweihnachten / Over Christmas – Netflix – romcom-bíómynd:
Basti er ekki á góðum stað núna um hátíðirnar, ekkert gengur upp. Hann er óheppinn í ástum og spilum og tónlistarferillinn er ekki líklegur til að ná miklu flugi. Nýskilinn og langt niðri ákveður hann að halda heim í foreldrahús til að halda jól. En þar mætir bróðir hans á staðinn með þá fyrrverandi sér við hlið. Botninum er greinlega ekki náð.
The Beast – La Belva – Netflix-bíómynd:
Andlega óstabíll sérsveitarmaður missir tökin þegar dóttur hans er rænt og fellur grunur á hann fyrir vikið.
Black Beauty – Disney+-bíómynd:
Þessi klassíska saga fær hér aðeins öðruvísi nálgun í nýrri mynd Disney.
Kvikmyndir og þættir sem koma út 1. desember:
The Holiday Movies That Made Us – Netflix-þættir:
Þættir um jólamyndir sem hafa mótað kynslóðir.
Kvikmyndir og þættir sem koma út 2. desember:
Alien Worlds – Netflix-heimildarþættir:
Þeir segja að það sé bara tímaspursmál hvenær þeir finna tilvist lífs á öðrum plánetum. Hér er þessu velt upp og það sem við vitum um okkar heim notað til að velta upp hvers konar líf gæti verið annars staðar. CGI-tölvuteiknitækni er notuð til að skapa þessa heima. Áhugaverðir þættir frá Netflix.
Ari Eldjarn: Pardon My Icelandic – Netflix-uppistand:
We have the best comedians in the world – per capita!
Ari Eldjárn fer á kostum í þessu uppistandi.