Mikilvægt að börn fái að leysa vandamálin sjálf

Bjarni Fritzson er eigandi sjálfstyrkingarfyrirtækisins Út fyrir kassann, sem heldur meðal annars námskeið fyrir stráka og stelpur, unglinga, ungt íþróttafólk og foreldra. Bjarni er einnig rithöfundur og hefur meðal annars skrifað bækurnar um Orra óstöðvandi og Öflugir strákar – Árangur er engin tilviljun.

Í gær kom út bókin Öflugir strákar – Trúðu á sjálfan þig og tengir Bjarni bókina við námskeið sitt Öflugir strákar sem er sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unga stráka.

Bjarni mætti í viðtal við þeirra Ásgeirs Páls, Jóns Axels og Kristínar Sifjar í morgunþættinum Ísland vaknar og ræddi við þau um börn og mótlæti.

„Bókin og námskeiðið er svona byggt upp saman og svo það sem ég geri í þessari bók er að ég tengi hana rosa mikið við Orra óstöðvandi-bækurnar. Þannig að ég er kannski að kenna hvernig á að takast á við mótlæti og þá er svona lítil saga af því hvernig Magga Messi tókst á við mótlæti þegar hún lenti í að meiðast á stóru móti. Þannig að hún á að vera rosalega aðgengileg og með fullt af flottum myndum fyrir krakka,“ segir Bjarni.

Foreldrar gera of mikið fyrir börnin sín

Bjarni segir að foreldrar hafi í raun gert svolítið mikið fyrir börnin sín undanfarin ár miðað við áður fyrr.

„Áður fyrr voru krakkar látnir gera aðeins meira sjálf og þjálfuðu þá kannski með sér meiri þrautseigju en ef við gerum allt fyrir þau. Þannig að í raun og veru verðum við að leyfa krökkunum að takast á við lítil mótlæti þegar það kemur þegar þau eru lítil. Til dæmis ef eitthvað kemur upp á í skólanum sem þú telur að barnið þitt geti leyst sjálft, þá á að láta barnið leysa það. Sem dæmi ef þjálfarinn setur barnið í b-liðið, ekki þá grípa símann og hringja í þjálfarann og segja honum að hann verði að bjarga þessu, heldur leyfa barninu að reyna að vinna sig út úr því og koma sér aftur í það lið sem það telur sig eiga heima í. Þannig að besta leiðin til að þjálfa börn í þrautseigju er að leyfa þeim að takast á við smá mótlæti og sigrast á því,“ segir Bjarni.

Bjarni segir foreldra halda sig vera að gera börnunum gott en í raun og veru séu þeir alls ekki að því.

„Það sem getur gerst ef þú færð aldrei að þjálfa þig í að takast á við mótlæti, og svo lendirðu í einhverju miklu mótlæti þegar þú ert táningur eða eitthvað, þá veistu ekkert hvernig þú átt að bregðast við og þá verður höggið svo ótrúlega stórt,“ segir hann.

Viðtalið við Bjarna má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist