Hannar dúkkur með fötlun eða veikindi

Hin breska Clare Tawell er tveggja barna móðir sem hannar dúkkur sem eru með fötlun eða veikindi.

Frá 2017 hefur Tawell selt yfir 2.000 dúkkur sem eru allar ólíkar og einstakar. Hún tók eftir að dúkkur voru mjög einsleitar og ákvað að leggja sitt af mörkum til að breyta því, í von um að auka sjálfstraust barna og sýna hversu fjölbreytt börn eru.

Tawel er geislafræðingur og eyðir frítíma sínum í að aðlaga dúkkur að ólíkum þörfum. Hún stofnaði óhagnaðardrifið fyrirtæki í kringum dúkkurnar undir nafninu Bright Ears UK og hugmyndin kviknaði upphaflega þegar hún var að leita að dúkku fyrir fjögurra ára gamla dóttur sína Matildu, sem notar heyrnartæki.

Hún segir það hafa verið mjög leiðinlegt að finna enga svoleiðis dúkku eða leikfang og fannst eins og samfélagið ýtti ekki undir mikilvægi fjölbreyttra fyrirmynda. Því hafi hún búið til sérstaka dúkku fyrir Mathildu og um leið og dóttirin opnaði gjöfina og skoðaði dúkkuna byrjaði hún strax að snerta heyrnartæki dúkkunnar og svo sitt eigið heyrnartæki.

Út frá þessu hefur Tawell hannað yfir 2.000 dúkkur og hafa þær vakið mikla athygli. Stefnir Tawell á að geta hannað sem mest af ólíkum dúkkum fyrir sem flesta.

Fyrir jólin 2020 er Tawell að hanna hátíðarútgáfur af álfum sem hægt er að aðlaga að þörfum hvers og eins sem pantar. Hún segist vona að leikfangaframleiðendur grípi hugmynd hennar og fari að framleiða aðgengilegri og fjölbreyttari leikföng, dúkkur og bangsa fyrir öll börn. Virkilega flott verkefni og fjölbreyttar fyrirmyndir skipta miklu máli!

Frétt frá Upworthy.

 

mbl.is