„Það er alveg ljóst að það mátti engu muna“

Ljósmynd: Jóhannes Ævarsson eigandi íbúðarinnar

Í Fagrahjalla í Kópavogi búa hjón sem var bjargað á ótrúlegan hátt frá eldsvoða og mikil heppni að ekki fór verr. Sif Garðarsdóttir er annar eigandi íbúðarinnar sem kviknaði í og sagði hún þeim Loga Bergmann og Sigga Gunnars söguna af því hvernig Gæi kötturinn þeirra bjargaði þeim.

„Það sem gerist í raun og veru er  klukkan er þrjú og ég vakna við það að kötturinn er kominn upp í rúm. Ég verð eiginlega að fá að segja smá forsögu á undan en kötturinn Gæi kom til okkar rétt fyrir jólin í fyrra, hann er sem sagt unglingur, rúmlega ársgamall, og hann kom ásamt bróður sínum sem heitir Glói. Ég sem sagt tek tvo ketti.

Svo gerist það fyrir mánuði að við missum Glóa undir bíl, sem var náttúrlega afskaplega leiðinlegt, og þá fórum við að hafa svo miklar áhyggjur af Gæja því þeir höfðu verið afskaplega nánir kisubræður, meðal annars sváfu þeir í faðmlögum allar nætur. En þeim var ekkert boðið að vera uppi í rúmi hjá okkur. En þegar Glói er farinn þá fórum við að bjóða Gæja að kúra á milli okkar. Bæði svona hans vegna og okkar vegna.

Var ekki tilbúinn til þess að fara að sofa

Þessa umræddu nótt er honum boðið að kúra með okkur en hann vill ekkert sjá okkur þetta kvöld, hann var ekki tilbúinn til þess að fara að sofa svo hann er bara eitthvað frammi í íbúð og við förum að sofa og við lokum sem sagt ekki dyrunum inn í svefnherbergi hjá okkur sem við gerum oft.

Svo þarna um þrjúleytið vakna ég við það að kötturinn er kominn upp í rúm og er mjög órólegur sem er mjög óvenjulegt.

Í svefnrofunum heyri ég eitthvert hljóð sem ég gat ekki staðsett. Var svona sambland af því að það væri verið að rífa pappír og þungir dropar að falla og fyrsta hugsunin var náttúrlega: hvað er kötturinn búinn að gera!“ segir Sif.  

Eiginmaður Sifjar heyrði engin skrítin hljóð en ákveður að fara á klósettið. Þegar fram er komið blasir við honum eldur á palli þeirra hjóna sem var á leið inn um stofugluggana.

Ljósmynd: Jóhannes Ævarsson eigandi íbúðarinnar

„Um leið og hann fer fram stekkur kötturinn upp og klórar á mér handlegginn sem hann gerir aldrei. Maðurinn fer fram og svo bara öskrar hann „það er kviknað í“ og á sama augnabliki er ég komin á rúmstokkinn að fara út úr rúminu  athuga með þetta hljóð og hljóðið var þá bara snarkið í eldinum,“ segir hún.

Hjónin hringdu strax á neyðarlínuna og komu sér út úr húsinu. Þegar þau opnuðu útidyrnar hljóp kötturinn rakleiðis út og þegar lokið var við að slökkva eldinn skilaði hann sér aftur heim.

„Það er alveg ljóst að það mátti engu muna. Ef við hefðum kúrt í tvær mínútur í viðbót hefði staðan geta verið allt önnur,“ segir Sif.

Bæði hjónin og kötturinn sluppu ósködduð frá þessari lífsreynslu sem Sif segist ekki óska neinum. Hún viðurkennir að Gæi eigi skilið humar og rjóma öll jólin fyrir afrek sitt.

Viðtalið við Sif má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is