„Prófin eru aldrei stærri en við sjálf“

Ljósmynd: Unsplash/Green Chameleon

Góðan og gullfallegan miðvikudaginn. Nú blasa við lokapróf fyrir nemendur landsins og skammdegi fyrir alla. Margt fallegt er þó að finna á þessum tímum og var himinninn núna í morgun algjörlega dásamlegur.

Þegar erfiðir eða krefjandi tímar ganga í garð er gott að minna sig á að blessunarlega er allt tímabundið og er mikilvægt að muna að fara vel með sig.

Besta prófaráð sem ég hef fengið var frá stærðfræðikennaranum mínum í 3. bekk í MR og notast ég enn við það.

Hann mælti með því að læra eins vel og maður gæti en muna alltaf að anda djúpt og taka göngutúr þegar þörf væri á. Göngutúrinn er aldrei ofmetinn og það er mikilvægt að viðra og á sama tíma virða heilann okkar og þakka honum fyrir frábær störf.

Enn fremur hvatti þessi fíni stærðfræðikennari okkur til þess að slaka aðeins á kvöldið fyrir próf, fá okkur eitthvað ótrúlega gott að borða og horfa á skemmtilegan þátt fyrir svefninn sem fengi mann aðeins til að brosa og hlæja. Hlátur getur líka verið öflugasta meðalið.

Munum að prófin eru aldrei stærri en við sjálf og segja ekki til um virði okkar sem einstaklinga, gerum einfaldlega okkar besta, höfum trú á okkur sjálfum og á sama tíma umburðarlyndi í eigin garð.

Ég mæli með því að hafa það extra huggulegt, í þægilegum fötum, með smákökur og kertaljós. Njótum þess að dýpka viskubrunn okkar, næra líkama og sál með góðum mat, sofa vel, anda djúpt og allt verður í lagi.

Það er líka fátt sem jafnast á við það að klára eitthvað krefjandi, það er aldrei eins gaman að sofa út og kúra uppi í sófa og eftir prófatörn.

Gangi ykkur sem allra best og þið eruð svo dugleg!!

mbl.is