Jólin öðruvísi fyrir þá sem hafa misst ástvin

Ljósmynd: Unsplash/Lukas Langrock

Anna Lóa sem er með Hamingjuhornið ræddi við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel um þá sem hafa upplifað missi á árinu og hvernig aðventan og jólin eru fyrir þann hóp.

„Á hverri einustu aðventu síðan ég byrjaði að skrifa birti ég pistil um aðventuna og jólin sérstaklega fyrir þá sem hafa misst á árinu af því að þetta er oft erfiður tími fyrir þá,“ segir Anna Lóa.

Anna Lóa er með Hamingjuhornið á Facebook.

„Þið voruð að tala um hefðir og þær eru einmitt hluti af því af hverju okkur reynist þetta erfitt. Af því að jólin eru oft svo meitluð í stein hjá sumum og svo ef það hafa orðið miklar breytingar eða fólk hefur verið að fara í gegnum áföll þá er auðvitað allt breytt,“ segir Anna Lóa og bætir við: „Það fyrsta sem maður þarf að muna er að jólin eru ekki meitluð í stein og maður þarf aðeins að skoða væntingar sínar og ef maður hefur orðið fyrr missi á árinu þá er eitt alveg öruggt og það er að jólin verða öðruvísi.“

Anna segir jólin vera tímabil þar sem maður þarf að leita að ákveðnu jafnvægi.

„Maður leyfir kannski smá gleði að komast inn í líf sitt á sama tíma og maður er að syrgja og maður þarf að hitta fólk af því að þegar mann langar ekki að hitta neinn, þá þarf maður mest á því að halda. En það þýðir ekki að maður þurfi að stoppa lengi. Við þurfum líka að leyfa öðrum að aðstoða okkur og læra að biðja um hjálp,“ segir hún.

Þá segir Anna Lóa mikilvægt að virða ólíkar leiðir fólks og að sorgin sé ekki ferli sem hægt sé að flýta.

Viðtalið við Önnu má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:  

Hér fyrir neðan má svo lesa pistil Önnu:

 

mbl.is