Dularfulla músahvarfið

Ljósmynd: Unsplash/Giuseppe Martini

Nú er tíminn þar sem fólk er aðeins farið að finna fyrir músunum en þær eiga það til að koma inn til fólks á haustin til að forða sér frá kuldanum.

Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Ásdísi Ásgeirsdóttur blaðamanni hjá Morgunblaðinu og samstarfsfélaga þeirra sem lenti einmitt í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu á dögunum að kötturinn hennar kom inn með litla mús með sér.

„Hjálp, bak við þessar dyr er lifandi mús. Kann einhver ráð hvernig ég næ henni?“ skrifaði Ásdís á facebooksíðu og birti í leiðinni mynd af hurðinni. Það sem vakti áhuga Loga og Sigga var að fyrir framan hurðina á myndinni sat makindalegur köttur.

Ljósmynd: Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það er þannig að kötturinn kom hérna inn um kisulúguna með mús í gær og hún slapp og hljóp eitthvað um og endaði hérna inni á skrifstofu. Ég skildi ekkert hvað kötturinn var að brasa þarna og fer inn og hann er þefandi þarna út um allt og það voru þarna einhverjar mottur sem lágu á gólfinu svona brotnar saman og ég kippi þeim upp og þá bara skýst lítil mús þarna undan og ég náttúrlega fékk hjartaáfall og fríkaði út og ríf köttinn upp á hnakkanum og hendi honum fram og skelli svo bara hurðinni,“ segir Ásdís.

Ásdís brá þá á það ráð að setja bækur fyrir neðan hurðina svo músin kæmist ekki út og kötturinn ekki inn.

„Svo lá kötturinn bara þarna í nokkra klukkutíma af því að ég þurfti að fara í strípur og klippingu og mátti ekkert vera að þessu. Maður sleppir því ekki á þessum síðustu og verstu tímum,“ segir hún og hlær.

Gat ekki hugsað sér að sleppa kettinum lausum

Eftir að heim var komið bað hún vini sína á Facebook um ráð og sögðu flestir henni að sleppa kettinum lausum.

„En mér fannst það svo ljótt að láta hann éta hana, svo langaði mig ekkert að hann myndi vera að tyggja músina og svona,“ segir hún.

Ásdís setti því upp gildru til þess að reyna að veiða músina en allt kom fyrir ekki.

Í samtali við blaðamann segir Ásdís músina enn ófundna þrátt fyrir að hún hafi leitað alls staðar.

„Ég held að hún sé horfin, ég er búin að leita alls staðar. Ég skil ekki hvernig hún hvarf en þetta er svona dularfulla músarhvarfið,“ segir Ásdís.

 Viðtalið við Ásdísi má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan: 

mbl.is