Aðdáendur Díönu láta konungsfjölskylduna heyra það

Þættirnir The Crown, sem fjalla um sögu bresku konungsfjölskyldunnar, hafa slegið í gegn um allan heim. Nýjasta þáttaröðin fjallar m.a. um þegar Díana, þá unglingsstúlka, féll fyrir Karli Bretaprinsi og gekk með honum upp að altarinu. 

Hún hélt því fram, áður en hún lést á sviplegan hátt, að það hefðu alltaf verið þrír í hjónabandinu; hún, Karl og Camilla Parker Bowles sem Karl hafði áður verið í tygjum við.  

Miklir erfiðleikar voru í hjónabandi Díönu og Karls enda um margt ólíkt. Díana reyndist vinsæl hjá almenningi sem Karl er sagður ekki hafa getað fellt sig við. 

Á dögunum birti breska konungsfjölskyldan mynd af Camillu á instagramsíðu sinni. Tilefnið var ritgerðasamkeppni sem konungsfjölskyldan stendur fyrir. Aðdáendur Díönu brugðust fljótt við og hafa þúsundir manns nú skrifað skilaboð við myndina. Margir velta því fyrir sér hvort Camilla hafi séð nýjustu þættina.

„Hefur hertogaynjan horft á nýjustu seríu The Crown á Netflix?“ spyr Maryland_erik á instagramsíðu fjölskyldunnar.

„Karl hefði átt að fá að giftast Camillu í upphafi. Þá væri Díana kannski enn á lífi og hamingjusamlega gift manni sem kunni að meta hana,“ segir mizbigbear.

„Í heimi fullum af Camillum, vertu Díana,“ segir danielosornio.

„Lengi lifi minning Díönu prinsessu!“ segir notandinn wiubr.

„Ég skil að það er langt síðan þetta gerðist en í sannleika sagt er ég í uppnámi yfir því að Camilla var gift kona og Charles var giftur Díönu en þau litu algjörlega fram hjá mökum sínum og nú er þeim hampað sem framtíðarkonungi og -drottningu sem lifa hamingjusamlega til æviloka,“ segir notandinn deblood16.

Mörg þúsund skilaboð af þessu tagi má lesa við myndina af Camillu á instagramsíðu konungsfjölskyldunnar og greinilegt er að vinsældir Díönu prinsessu hafa ekki minnkað þrátt fyrir andlát hennar.

Yngsta kynslóðin virðist afar hliðholl Díönu, ef marka má fjölmörg myndskeið á samskiptamiðlinum TikTok. 

Leikkonan Emma Corrin er sögð sýna stórleik í hlutverki sínu sem Díana prinsessa. 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist