„Þú ert ekki að fara að bíða eftir neinu“

Í Græjurannsóknarstofu Loga og Sigga fór Valur frá Elko með þeim yfir nýjasta æðið sem allir virðast vilja eignast, PlayStation 5-tölvuna.

Valur segir það virkilega spennandi að tölvan sé loks að koma út og að margir séu búnir að bíða mjög spenntir, enda séu sjö ár síðan PlayStation 4 kom út. Hann segir mikla umræðu hafa skapast á samfélagsmiðlum þar sem fólk sé að reyna að endurselja tölvurnar á um tvö hundruð þúsund krónur. Einungis ákveðið mörg eintök hafi komið til landsins og til þess að eignast tölvuna þurfi að skrá sig á lista og bíða í röð.

Tölvan miklu öflugri og leikirnir flottari

Tvær útgáfur af vélinni komu út, digital útgáfa og vél með diskadrifi. Digital útgáfan kostar 79.995 krónur en vélin með diskadrifi kostar 99.995 krónur.

„Munurinn á PlayStation 5 og PlayStation 4 er að þú ert með miklu hraðari gagnavinnslu. Þú ert með SSD-disk í staðinn fyrir HDD-disk ef ég fer í svona tæknilegar umræður og það þýðir bara á mannamáli að það er enginn „loading screen“. Þú ert ekki að fara að bíða eftir neinu, hún er svo sjúklega hröð. Tölvan er orðin svo miklu öflugri að leikirnir verða svo miklu flottari. Það er svona aðalpunkturinn með þessum leikjatölvukynslóðum,“ segir Valur.

Fyrir krakka undir tíu ára mælir Valur þó frekar með Nintendo Switch-tölvunni enda höfði leikirnir þar frekar til allra aldurshópa. Þá tölvu sé einnig hægt að nota án þess að tengja hana við sjónvarp.

Þá segir Valur að fyrir þá sem séu í jólagjafaleit handa eiginkonum sínum séu Dyson-hárvörurnar hin fullkomna jólagjöf. Hægt er að kaupa sett sem kostar jafn mikið og PlayStation 5 með diskadrifi og í því sé hárblásari, krullujárn og sléttujárn allt í einu tæki.

„Þetta er allt sem þú þarft til þess að vinna með hárið. Þetta er ekki frítt en er virkilega gott. Ef maður fer yfir tækin sem maður notar í hárið á sér samanlagt þá er það líklega ekkert langt frá þessu verði,“ segir hann.

Viðtalið við Val má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir