Spotify fín tekjulind kunni maður á það

Unnur Sara Eldjárn er í sviðslistanámi í Montpellier í Frakklandi og hefur verið að gefa út mikið af franskri tónlist. Hún hefur náð góðum árangri á Spotify og í viðtali við þá Sigga Gunnars og Loga Bergmann í Síðdegisþættinum segir hún að með rétti þekkingu geti Spotify verið fín tekjulind.

„Það er svolítið erfiðara að koma íslenskum lögum með íslenskum texta á framfæri,“ viðurkennir Unnur enda er markaðurinn fyrir íslenska tónlist lítill.

Mikilvægt að komast inn á góða spilunarlista

Unnur segir það mikilvægt að komast inn á góða spilunarlista á Spotify til þess að fá reglulega spilun.

„Þetta er orðið svolítið þannig til þess að fá reglulega spilun og gallinn við spilunartölur er að ef maður nær kannski einhverju „bústi“ þegar maður er nýbúinn að gefa út lag og er kannski með einhverjar þúsundir mánaðarlegra hlustenda skráðar þá, en um leið og það eru kannski tveir mánuðir liðnir dettur það bara niður í kannski fjörutíu og það lítur ekkert rosalega vel út gagnvart fólki sem sér það og útgáfufyrirtækjum sem eru að pæla í manni og svoleiðis,“ segir hún.

Hún segir að besta leiðin til þess að komast inn á spilunarlista sé að vera skapandi og láta sér detta í hug sniðug nöfn. Unnur tók upp nýja plötu í sumar sem hún stefnir á að gefa út næsta sumar og segist hún ekki hefðu gert það nema vegna þess að hún vissi að hún gæti borgað hana upp með tekjunum sem hún fékk í gegnum Spotify.

Unnur viðurkennir þó að henni þyki Spotify ekki greiða listamönnum nóg fyrir vinnu sína. Vegna þess hve margir höfðu samband við Unni og vildu vita hvað hún gerði til þess að fá jafn mikla spilun og raun ber vitni ákvað hún að halda námskeið hér á Íslandi þar sem hún er bæði með einkakennslu sem og hóptíma þar sem hún deilir þekkingu sinni.

Viðtalið við Unni má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist