„Ég hef haft það betra“

Viktoría Hermannsdóttir og Sóli Hólm eiga von á barni.
Viktoría Hermannsdóttir og Sóli Hólm eiga von á barni.

Sólmundur Hólm og Viktoría Hermannsdóttir eiga von á sínu fimmta barni hinn 25. maí á næsta ári. Sóli ræddi við þá Loga Bergmann og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum um stækkandi fjölskyldu.

„Þetta er alveg alvörupakki, þú kannski kannast við þetta sjálfur Logi, þegar maður er bara með þrjú börn, að það er alveg geggjaðslega þægilegt og ég hugsaði: þetta er bara gott. Við bara förum ekkert í meira, en svo þegar þetta er komið í einhverja svona óþægilega tölu, einhvern veginn engir venjulegir bílar passa og þetta, þá skiptir það ekki máli hvort þau verða átta eða tólf eða eitthvað, þetta er bara orðið fjör,“ segir Sóli.

Táknmynd föstudagsins

Þrátt fyrir samkomutakmarkanir hefur Sóli ekki setið auðum höndum en hann hefur bæði verið að fjarskemmta, verið í sjónvarpinu og er einnig að vinna í húsi fjölskyldunnar.

Það er ávallt mikið fjör í kringum Sóla og segir Logi hann vera táknmynd föstudagsins.

„Það er svolítið gaman að þú skulir segja þetta af því að ég held að þetta sé alveg rétt metið hjá þér, ég held að fyrir fólki sé ég föstudagur, en sjálfur elska ég mánudaga. Af því að maður er í þannig vinnu að þá er ekkert að gera. Þá er ekkert fram undan fyrr en eftir fjóra fimm daga. Af því að ég er letingi sko,“ viðurkennir Sóli.

Aðspurður hvort honum þyki mánudagarnir bestir vegna þess að þá sé hann einn heima segir Sóli:

„Já, ég veit það en núna er það reyndar ekki þannig af því að ég verð bara að vera að vinna í húsinu, ég get ekkert slakað á. En ég þrái þetta einmitt, en núna er líka Viktoría að vinna heima alltaf og svona þannig að þetta er, já ég hef haft það betra, við skulum segja það,“ segir hann og hlær.

Viðtali við Sóla má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist