Þurfum að hlæja að góðu kjaftæði þetta árið

Sindri Már Hannesson er einn af þremur vinum að norðan sem voru að setja á markað borðspilið Kjaftæði. Sindri ræddi við þá Sigga Gunnars og Loga Bergmann í Síðdegisþættinum og útskýrði fyrir þeim hvernig spilið virkaði.

„Kjaftæði er stórskemmtilegt fjölskyldu- og partíspil sem krefst engra hæfileika. Þú bara skellir góm í kjaftinn og gangi þér svo vel að koma einhverju skynsamlegu út úr þér,“ segir Sindri.

Gómurinn sem Sindri talar um er svipaður þeim sem tannlæknar nota til þess að halda munni fólks opnum.

„Þetta er búin að vera falin ánægja á tannlæknastofum landsins en við erum að færa almenningi þetta núna. Þetta er munngómur sem þú krækir í kjaftinn og þú sérð vel hvort það sé að koma endajaxl upp eða ekki. Þú átt svo að reyna að koma út úr þér einhverjum af þeim fjögur hundruð setningum sem fylgja spilinu og liðsfélagi þinn á að giska,“ segir Sindri.

„Ef það er einhvern tímann sem við þurfum að hlæja að góðu kjaftæði, þá er það á þessu ári,“ segir hann og tók svo nokkur dæmi.

Myndband af Sindra og viðtalið við hann má sjá hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist