„Við erum komin með unga kynslóð sem lifir bara þessum lífsstíl“

Verslunin Góði hirðirinn opnaði dyrnar að nýju rými sínu á Hverfisgötunni klukkan 11 í morgun. Rut Einarsdóttir rekstrarstjóri Góða hirðisins ræddi við þá Sigga Gunnars og Loga Bergmann í Síðdegisþættinum, meðal annars um það hvers vegna ákveðið var að opna annað útibú.

„Það kom nú bara til vegna þeirra annmarka sem Covid hefur sett okkur. Við erum búin að þurfa að kljást við samkomutakmarkanir eins og margir aðrir en það er ekkert lát á því dóti sem til okkar berst, þannig að fyrst opnuðum við netverslun til að stuðla að þeim endurnotum sem eru náttúrlega kjörorð Góða hirðisins og næsta í stöðunni var bara að útvíkka og opna aðra verslun,“ sagði Rut.

Gæði munanna mun meiri

Rut segir starfsfólkið finna fyrir aukningu á munum síðan Covid byrjaði en segir aðalbreytinguna vera að gæði munanna sem þeim berast séu mun meiri.

„Við erum með tólf gáma á sex endurvinnslustöðvum og þetta eru svona sex til átta tonn að meðaltali sem koma til okkar á hverjum degi,“ sagði hún.

Markmið Góða hirðisins er að stuðla að endurnotkun og segir Rut starfsfólk vilja hámarka það að allt sem til þeirra berst komist í endurnot.

„Þá verðum við náttúrlega að fjölga útibúum og það er alveg í myndinni að gera það. Þetta er orðið svo breytt, við erum komin með unga kynslóð sem lifir bara þessum lífsstíl, hún vill bara endurnot,“ sagði Rut.

Rut segir að ástæðan fyrir því að ákveðið hafi verið að opna útibú í miðbænum sé bæði vegna þess að mikið af ungu fólki sæki þangað en einnig vilji þau halda lífi í miðbænum.

Báðar Góða hirðis-verslanirnar eru opnar en aðeins tíu manns mega vera inni í einu í hvorri verslun fyrir sig.

Viðtalið við Rut má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is

#taktubetrimyndir