Mikill sóðaskapur af fjúkandi grímum

Ljósmynd: Hera Sigurðardóttir

Hera Sigurðardóttir gekk á dögunum frá Goðheimum á Bugðulæk í gegnum Laugardalinn og ákvað í leiðinni að tína upp rusl.

Í þessum stutta göngutúr segist Hera hafa tínt upp um tuttugu andlitsgrímur sem urðu á vegi hennar.

Langflestar grímurnar voru við Langholts- og Laugalækjarskóla en í samtali við blaðamann segist Hera þó alls ekki telja að unglingar séu meiri sóðar en aðrir þrátt fyrir að flestar grímurnar hafi verið við skólann.

„Ég held að mest sé þetta fljúgandi um því þetta fýkur upp úr ruslagámum, úr vösum, töskum og bílum í rokinu,“ segir hún.

Hera hvetur fólk til þess að taka með sér ruslapoka í göngutúrana og tína upp þær grímur og rusl sem á vegi þeirra verður en minnir þó jafnframt á að vera með hanska með sér og að þvo sér vel.

mbl.is

#taktubetrimyndir