Gaf starfsfólki spítalans öll blómin úr búðinni

Hin franska Murielle Marcenac rak blómabúð í Frakklandi sem hún þurfti því miður að loka, þar sem Covid-19 hafði mikil áhrif á viðskiptin.

Hún gat þó ekki hugsað sér að henda þeim blómum sem eftir voru og ákvað því að hanna fallega blómvendi til þess að gefa spítalastarfsfólki.

Hún keyrði á spítalann sem var næst sér, Perpignan Hospital, og raðaði blómum í körfum ofan á bíla á starfsmannaplani spítalans til þess að halda góðri fjarlægð.

Hún sagðist hafa þurft að taka ákvörðun og þessi hugmynd hafi komið beint upp í huga hennar. Í staðinn fyrir að gráta sagðist hún vilja fá fólk til þess að brosa, sérstaklega á tímum sem þessum. Þetta gladdi starfsfólkið mikið og fékk Murielle heilmikið af fallegum kveðjum.

Hún hefur nú heimsótt aðra spítala og gert hið sama og stefnir á að klára öll blómin sem eftir eru. Virkilega fallegt og skemmtilegt góðverk. Blóm eru svo falleg og geta svo sannarlega veitt gleði.

Mér finnst eitthvað svo táknrænt að sjá þau springa út, með von um nýja tíma.

Frétt frá Tankgoodnews.

 

mbl.is