Áhorfendur stjórna orðavali Sigga í Bingó

K100 bingó.
K100 bingó. Árni Sæberg

Þau Svanhildur Eiríksdóttir og Kristján Jóhannsson voru ansi heppin síðasta fimmtudag þegar þau nældu sér í einn af aðalvinningunum á bingókvöldi mbl.is.

Á morgun, fimmtudaginn 19. nóvember, verður aftur slegið til mikillar veislu í beinni útsendingu á mbl.is þegar Siggi Gunnars og Eva Ruza færa fjölskyldum landsins bingótölurnar beint heim í stofu.

„Ég vil óska þeim Svanhildi og Kristjáni innilega til hamingju með nýja sjónvarpið. Út á þetta gengur bingó, að vinna glæsilega vinninga og já, auðvitað líka bara að vera með og skemmta sér. Ég þakka þeim kærlega fyrir að horfa og taka þátt,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson, bingóstjóri mbl.is.

Bríet tekur lagið 

Sem fyrr mætir frábær gestur í stúdíóið og er það engin önnur en söngkonan Bríet sem ætlar að syngja fyrir þátttakendur í þetta skiptið.

„Ég hlakka svo til að fá Bríeti í heimsókn til mín. Ég hef fylgst með þessari mögnuðu tónlistarkonu frá því hún spratt fram á sjónarsviðið og það hefur verið að frábært að fylgjast með henni í haust en hún á nú vinsælasta lag og vinsælustu plötu landsins. Ég mun pottþétt plata hana til þess að taka Rólegur kúreki,“ segir Siggi.

Aðalvinningur kvöldsins er Samsung Galaxy S20 FE en ásamt því verður fjöldi gjafabréfa ásamt ógrynni af ýmsum öðrum glæsilegum vinningum í boði.

Áhorfendur hjálpa Sigga að finna skemmtileg orð

Þá verður tekið í notkun myllumerkið #mblbingo og hvetjum við fólk til þess að deila myndum á Instagram með því.

„Margir bingóstjórar leggja mikinn metnað í að finna upp á skemmtilegum orðum eða nöfnum á undan tölunum þegar verið er að þylja þær upp. Svona eins og B-10, Bjarni-10. En mig langar að fá aðstoð frá áhorfendum við að finna upp á einhverju sniðugu til að segja og ætla ég að byrja á b-röðinni. Það verður hægt að gera það í gegnum Facebook en líka undir myllumerkinu #mblbingo ef menn eru á Twitter,“ segir Siggi sem er greinilega orðinn mjög spenntur fyrir kvöldinu.

Ekki missa af Bingó í beinni á fimmtudaginn klukkan 19:00 og tryggið ykkur spjald tímanlega á Bingósíðu mbl.is með því að smella hér.

mbl.is