Ekkert betra en að hlusta á jólalög í útilegum

Lalli töframaður ætlar að bjóða upp á jólastund með Lalla hinn 24. nóvember í beinni útsendingu. Hann ræddi við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel í morgunþættinum Ísland vaknar og sagði þeim nánar frá því.

„Það eru allir að halda jólatónleika á netinu og alls staðar eins og gengur og gerist og ég var að gefa út heila jólaplötu sem er komin á Spotify og hún heitir „Gleðilega hátíð“,“ segir Lalli og viðurkennir að hann sé alveg sérstakt jólabarn sem hlustar á jólalög allt árið.

„Það er fátt betra en að keyra úti á landi í útilegu með jólalög alveg á blastinu,“ segir hann.

Lalli segist heldur betur vera byrjaður að skreyta fyrir jólin og hann telur að lenskan sé orðin svoleiðis í dag að fólk sé aðeins fyrr farið að hluta á jólalög en áður.

„Af því að það má ekki halda tónleika svo ég gat ekki haldið útgáfutónleika fyrir plötuna, sem verður frestað fram að næstu jólum, þannig að þetta verður svona millivegur. Ég ætla að hafa svona jólastund sem verður svona sambland af útgáfutónleikum, þar sem ég ætla að spila smá jólalög og svo ætla ég til dæmis að gera vísindalega tilraun á því hvernig er best að hella saman malti og appelsíni og lesa jólasögu og svona þannig að þetta verður svona töfrandi jólastund. Allt sem ég geri er töfrandi,“ segir Lalli.

Viðburðurinn verður haldinn á Facebook og heitir hann Jólastund Lalla 2020.

Viðtalið við Lalla má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is

#taktubetrimyndir