Það á að taka út „normið“ í kynlífi

Kristín Þórs verðandi kynlífsmarkþjálfi ræddi við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel í morgunþættinum Ísland vaknar um hvað það er sem kynlífsmarkþjálfar geta gert fyrir einstaklinga.

„Þetta er svona viðtalsmeðferð sem maður veitir, bæði einstaklingar og pör geta komið saman eða hvort í sínu lagi og fundið út hvað það er sem þau vilja bæta í sínu lífi eða takast á við einhver ákveðin vandamál,“ útskýrir Kristín.

Hún segir markþjálfana læra sama grunn og kynfræðingar og þekki því vel á bæði líffræðilega og andlega hluti er snúa að kynlífi. Þá segir hún kynlífsmarkþjálfa hjálpa einstaklingum að útbúa eins konar „sexual history“ og hjálpa fólki gjarnan að finna út úr því hvers vegna það er að takast á við ákveðna hluti en komist þau að því að um einhvers konar djúpt og erfitt vandamál sé að ræða þá mæli þau alltaf með sálfræðingi eða kynlífsráðgjafa.

„Eina forsendan til að þú mætir í kynlífsmarkþjalfun er sú að þú viljir breyta. Þú ferð ekki að pína makann þinn til að mæta af því að það þarf að laga hann, viðkomandi verður að vilja sjálfur koma og díla við það sem þarf að díla við,“ segir hún.

Henda „norminu“ í burtu

Kristín segir að það fyrsta sem þurfi að taka í burtu sé þetta svokallaða „norm“.

„Það eru allir að keppast við það að vera eðlilegir. „Er þetta vaninn, er þetta venjan, já ég sá hérna að þrisvar í viku að stunda kynlíf með maka það er normið.“ Það á að taka þetta og henda í burtu,“ segir Kristín.

„Kannski er normið fyrir mig að stunda kynlíf sex sinnum í viku en annan einu sinni í mánuði, en ef allir eru sáttir þá þarf ekkert að vinna úr því. Það þarf að taka þetta norm. Hver setur hvað er norm?“ segir hún.

Kristín segir marga erfiðleika geta komið upp þegar kemur að kynlífi fólks og að það sé allt of algengt að fólk berjist um í hljóði og þori ekki að leita sér aðstoðar.

„Það er hægt að gera ótrúlega margt, það er hægt að hjálpa einstaklingum að upplifa betra kynlíf, að líða betur í eigin skinni, að þora að fara út og finna sér elskhuga eða maka. Það þarf ekki alltaf að vera bara fastur í eigin haus og halda að það sé alltaf allt að sér en allir aðrir fullkomnir,“ segir hún.

Viðtalið við Kristínu má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist