Íslensk lög sem heyrast of sjaldan

Í tilefni af degi íslenskrar tungu ákváðu þeir Logi og Siggi í síðdegisþætti K100 að tilnefna fjögur íslensk lög, sem sungin eru á íslensku, sem heyrast of sjaldan. Eitt lag frá árunum 1990 til 2005 og annað frá árunum 2006 til 2020. 

Stefán Hilmarsson - Í fylgsnum hjartans

Fyrra lagið sem Siggi tilnefndi var lag Stefáns Hilmarsson og Ástvaldar Traustasonar, Í fylgsnum hjartans. Lagið kom út á annarri sólóplötu Stefáns, „Eins og er...“, sem kom út árið 1996. Lagið naut töluverðra vinsælda þegar það kom út á sínum tíma en hefur lítið heyrst hin síðari ár, fyrir utan þegar Hildur Vala gaf út sína útgáfu af laginu árið 2005. 

Unun - Lög unga fólksins

Fyrra lagið sem Logi tilnefndi var með hljómsveitinni Unun en það var þeirra allra stærsta smellur, „Lög unga fólksins.“ „Þetta er svona gott, hrátt, íslenskt rokklag. Textinn er skrýtinn en geggjaður,“ sagði Logi um lagið. Þarna fóru fremst í flokki þau Heiða Eiríksdóttir og Dr. Gunni en hljómsveitin starfaði á árunum 1994 til 1999.

Svavar Knútur - Brot

Árið 2015 gaf Svavar Knútur út plötuna Brot og tilnefndi Siggi lag af þeirri plötu sem sitt seinna lag. Lagið Brot fjallar að einhverju leyti um sorgina sem Svavar upplifði eftir snjóflóðið á Flateyri árið 1995 en hann missti pabba sinn í flóðinu. „Í grundvallaratriðum hafa Kvöldvaka, Ölduslóð og Brot að miklum hluta verið að segja eina stóra sögu, sem er sorgarferlið mitt eftir að pabbi dó. Hann dó í snjóflóðinu á Flateyri 1995 ásamt 19 öðrum nágrönnum, ættingjum og vinum,“ sagði Svavar í samtali við Albumm.is árið 2015. Sigga finnst lagið Brot heyrast allt of sjaldan.

Sykur - Reykjavík

Logi tilnefndi „besta Reykjavíkurlagið sem hefur verið samið“ sem sitt seinna lag. Lagið kom út árið 2011 á plötu sveitarinnar, Mesópótamíu, en lagið naut töluverðra vinsælda þá. Loga þykir lagið heyrast of sjaldan nú til dags og vildi hann því vekja athygli á því á þessum degi.

Hlustaðu á innslagið um lögin úr Síðdegisþættium á K100 í spilaranum hér að neðan.

mbl.is