Vill umburðarlyndi gagnvart ólíkri menningu

Á bakvið grímurnar leynast Elísabet Hulda Snorradóttir, Miss Universe Iceland, …
Á bakvið grímurnar leynast Elísabet Hulda Snorradóttir, Miss Universe Iceland, og Dísa Dungal, Miss Supranational. Ljósmynd/Arnór Trausti

Fegurðarsamkeppnin Miss Universe Iceland var haldinn síðastliðinn föstudag og var samfélagsmiðlastjarnan Eva Ruza kynnir. Í Síðdegisþættinum var Eva svo með Sigga Gunnars og heyrðu þau í Elísabetu Huldu Snorradóttur, sem sigraði í keppninni.

Elísabet segir það mikinn heiður fyrir sig að hafa unnið og segir hún fegurðarsamkeppnir mikið hafa breyst.

„Mér finnst voða mikið misskilið hvernig fólk heldur að þetta sé. Þetta er ekki eins og í gamla daga, þessar keppnir hafa breyst afskaplega mikið. Ég tók þátt í þessari keppni af því að það er málefni sem liggur voðalega mikið á mér og þetta er fullkominn staður til þess að nota og tala um það,“ segir Elísabet.

Man eftir niðurlægingunni þegar sett var út á menningu hennar

Elísabet bjó í Belgíu þegar hún var yngri og segist hún vilja leggja mikla áherslu á að fólk sé umburðarlynt gagnvart ólíkum menningarheimum.

„Ég tala af reynslu eftir að ég bjó úti í Belgíu sem krakki. Ég kom með slátur í skólann og krakkarnir gerðu grín að því. Ég man bara eftir niðurlægingunni sem ég fann fyrir þegar ég fann fyrir því að einhver var að setja út á menninguna mína,“ segir hún.

Elísabet segir alls óvíst hvenær aðalkeppnin fari fram en stefnt sé á að halda hana á fyrri hluta næsta árs. Þó sé ekkert hægt að staðfesta vegna Covid.

Viðtalið við Elísabetu má hlusta á hér fyrir neðan:  

mbl.is