Mikil stemning fyrir bingókvöldinu

Siggi Gunnarsson, útvarpsmaður, dagskrár- og tónlistarstjóri K100.
Siggi Gunnarsson, útvarpsmaður, dagskrár- og tónlistarstjóri K100. Ljósmynd/K100

„Undirbúningur gengur vel. Við vorum fram eftir í gær að prófa allan búnað og æfa okkur og spenningurinn hjá starfsfólkinu í kringum verkefnið er mikill,“ segir Siggi Gunnars sem stýrir bingó-fjölskyldugleði í beinni útsendingu á mbl.is klukkan 19:00 í kvöld.

Honum til halds og trausts verður samfélagsmiðlastjarnan Eva Ruza sem ætlar að sjá til þess að vinningarnir rjúki út.

„Við ætlum að fá sérstakan gest í kvöld en Eyþór Ingi ætlar að mæta og taka fyrir okkur lagið og brjóta bingóið upp,“ segir Siggi og viðurkennir að hann sé orðinn mjög spenntur fyrir kvöldinu.

„Við finnum fyrir góðum viðbrögðum, spjöldin rjúka út og það er greinilegt að margir ætla að gera sér glaðan dag og fylgjast með beina streyminu. Vinningarnir eru líka glæsilegir og ég veit að margir eru spenntir fyrir S20-símanum. Ég var að prófa hann í gær og hann er geggjaður, myndavélin er eitthvert rugl, sko!“ segir hann.

Vinningarnir í leiknum eru af öllum stærðum og gerðum og má þar meðal annars finna farsíma, gjafabréf og fleira.

Það geta allir tekið þátt í bingóinu og kostar þátttakan ekkert. Það eina sem þarf að gera er að skrá sig til leiks inn á mbl.is/bingo og sækja sér bingóspjöld. Það er þó takmörkuð þátttaka og því nauðsynlegt að hafa snör handtök.

mbl.is