Ekki aftur snúið eftir vel heppnað bingó

Bingóið er haldið á hverju miðvikudags- og sunnudagskvöldi í Vinabæ …
Bingóið er haldið á hverju miðvikudags- og sunnudagskvöldi í Vinabæ í Skipholti, gamla Tónabíói. mbl.is/Golli

Bingó er félagslegur leikur sem sameinar fólk með ólíkan bakgrunn á öllum aldri. Í hefðbundnu bingói eru dregnar tölur af handahófi og þær bornar saman við áprentuð spjöld sem prentuð eru út. Með komu tækninnar hafa einnig verið útbúin rafræn bingóspjöld og þá er hægt að spila leikinn bæði í hópi af fólki sem og ein/nn heima í gegnum samfélagsmiðla til dæmis.

Bingó í beinni: „Þurfum eitthvað til að gleðja okkur“ 

Rætur bingósins má rekja aftur um fimm aldir til ársins 1530 á Ítalíu. Þar kallaðist leikurinn „Lo Gioco del Lotto d'Italia“ og var birtingarmynd hans meira í líkingu við happdrætti eða lottó.

Talinn hafa komið með varnarliðinu

Leikurinn er talinn hafa komið hingað til lands með varnarliðinu í Keflavík árið 1953 en þá var fyrst farið að fjalla um spilið í blöðum og tímaritum landsins.

Þegar við Íslendingar hugsum um bingó leiðir hugurinn okkur gjarnan sjálfkrafa til félagsheimilisins Vinabæjar í Skipholti í Reykjavík enda hefur Vinabær verið þungamiðja bingóhalds á Íslandi til margra ára.

Það var árið 1982 sem Kristinn Vilhjálmsson heimsótti Arvid Johnsen hátemplar í Noregi og fékk að láni hjá honum bingótölvu, ljósaskipti og bingóblöð til þess að gera tilraun til að athuga hvort þessi nýja gerð af bingói gæti gengið hér á Íslandi, líkt og var svo vinsælt í Noregi á þeim tíma.

Það má segja að rekja megi bingóið eins og við þekkjum það í dag til þessa atburðar en hægt og rólega uxu vinsældir bingós hér á landi.

Greiddi tapið úr eigin vasa

Fyrstu spilakvöldin lofuðu ekki góðu og endaði Kristinn á því að greiða fyrir tap úr sínum eigin vasa en hann ákvað þó að gefast ekki upp.

Á miðvikudegi hinn fyrsta desember árið 1982 varð ekki aftur snúið eftir vel heppnað bingó og hefur það nú verið spilað á miðvikudags- og sunnudagskvöldum í viku hverri.

Árið 1990 flutti bingóið í eigið húsnæði eftir að hafa verið spilað á nokkrum stöðum víðs vegar um Reykjavíkurborg. Þá var haldin vígsluhátíð með glæsibrag í húsnæði þar sem Tónabíó hafði verið og Vinabær varð til í þeirri mynd sem við þekkjum.

Spilaði bingó allt til endaloka

Kristinn sjálfur var orðinn rúmlega sjötugur að aldri þegar hann hóf vinnu sína að því að stofnsetja bingóleikinn hérlendis og spilaði hann á hverju bingókvöldi allt þar til hann var fluttur með sjúkrabíl frá Vinabæ á Borgarspítalann þaðan sem hann átti ekki afturkvæmt.

Bingó var lengi vel sagt vera fyrir eldri borgara og gjarnan litið niður á það til að byrja með. Vinsældir þess uxu þó hratt og í dag spila allir aldurshópar bingó, enda oft til mikils að vinna og spennan í kringum það veruleg. Allir sem taka þátt í leiknum eiga jafna möguleika á sigri og gerir það hann einstaklega skemmtilegan.

mbl.is

#taktubetrimyndir