„Við erum ennþá á heiðinni“

Þórólfur Guðnason ræddi við Ísland vaknar í morgun.
Þórólfur Guðnason ræddi við Ísland vaknar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslendingar eru á viðkvæmum stað í faraldrinum og allt getur gerst, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hann hefur áhyggjur af þeim fjölda smita sem enn eru í samfélaginu þrátt fyrir hertar aðgerðir og segir að litlar hópsýkingar hafi komið upp hér og þar að undanförnu, þó ekki jafn stórar og sú sem varð á Landakotsspítala og um 90 smit eru rakin til. 

Þórólfur, sem á afmæli í dag, ræddi við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 í morgun og tjáði þeim að hann ætli ekki að halda afmælisveislu í dag. Hann hefði sagt sínu fólki að það myndi hann gera síðar. 

Áður hafði Þórólfur sagt í viðtali hjá Ísland vaknar að Íslendingar væru staddir á heiðinni, spurður hvar við værum stödd í faraldrinum. Því var hann í morgun spurður hvort við værum enn þá á heiðinni. 

„Já við erum ennþá á heiðinni.“

Erum við nokkuð föst í skafli?

„Það er ekki farið að snjóa enn þá en það er bara þoka og skyggnið er ekki gott, við vitum ekki alveg hvort við séum að fara upp í móti eða niður í móti eða beina línu.“

Styttist ekkert í Staðaskála, okkur er svo mál að pissa?

„Þá er oft gott að fara bara út og gá til veðurs, skoða og láta vaða.“

Veiran lúrir enn í samfélaginu

Mikill fjöldi sýna er tekinn daglega og sagðist Þórólfur hafa áhyggjur af því að margir væru að greinast utan hópsmitsins á Landakoti. 

„Sem segir okkur það að það er enn þá mikið samfélagslegt smit í gangi. Við erum að fá svona smá blossa hér og þar, kannski innan fyrirtækja, í skólum og þvíumlíkt sem segir það að veiran lúrir enn þarna og hún virðist eiga góðan aðgang að fólki á einhverjum stöðum alla vega. Það segir okkur það að við erum á viðkvæmum stað þar sem allt í raun og veru getur gerst. Við gætum fengið svona hópsýkingu, stóra, ég segi kannski ekki alveg eins og á Landakoti en í einhverju fyrirtæki gæti blossað upp svona sýking,“ sagði Þórólfur. 

Búin að malla í samfélaginu mjög lengi

Spurður um það hvers vegna betur gekk að ráða niðurlögum fyrstu bylgju faraldursins en þeirrar þriðju sagði Þórólfur:

„Í vor og vetur var þetta þannig að veiran kom á sama tíma hérna inn með miklum hamagangi með flugvélunum og farþegum frá Ölpunum. Þá brugðum við á það ráð að við bara settum alla sem voru að koma frá þessum svæðum í sóttkví. Það tók smá tíma að ná utan um tilfellin í kringum það en þá var hægt að kasta bara netinu einu sinni og ná allri torfunni. Þannig náðum við þessu niður bara strax. Núna er þetta búið að vera þannig að hún er búin að malla í samfélaginu mjög lengi. Hún fer víða, hún er að valda einkennalausum sýkingum, einkennalitlum sýkingum og svo allt í einu blossar hún upp og veldur svona hópsýkingu, við náum ekki að kasta netinu einu sinni heldur er hún dreifðari og það gerir það miklu erfiðara að uppræta þetta.“

Væri gott að ná veirunni niður fyrir jól

Þórólfur benti þó á að samkvæmt raðgreiningarupplýsingum frá Íslenskri erfðagreiningu séu Íslendingar fyrst og fremst að fást við eina tegund af veirunni sem til landsins í ágúst.

Aðspurður sagðist Þórólfur ekki vera að hugsa um jólin en hann vissi að aðrir veltu því fyrir sér hvernig þau yrðu. 

„Það væri mikið til þess að vinna að bara með átaki að reyna að ná henni niður og halda henni þar svo allir gætu fengið sín jól.“

„Ekkert hókus pókus“

Þórólfur sagði mikilvægt sem endranær að fólk virti nálægðartakmörk, færi ekki á mannmarga staði og færi ekki í vinnuna ef það væri veikt. 

„Það er engin töfralausn í þessu, það er ekkert hókus pókus sem kemur hérna úr turninum í Katrínartúni og allir verða voða glaðir og allt verður voða fínt. Það er bara ekki þannig. Það verða bara allit að taka þetta inn í rútínuna. [...] Þú verður bara að vera með þetta í tánum, puttunum og algjörlega í fingrunum alveg stöðugt.“

Hljóðupptöku af viðtalinu er að finna hér að neðan.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Í loftinu núna
Endalaus tónlist