Styður góðgerðarsamtök með ljótum myndum

List getur veitt ómælda gleði og lýst upp skammdegið eða erfiða tíma. Hinn 38 ára gamli Phil Heckels, búsettur á Suður-Englandi, notast við listina með von um að veita gleði og jafnvel fá fólk til þess að hlæja, ásamt því að styðja við mikilvægt málefni.

Hann teiknar skopmyndir af gæludýrum sem hann segir vera krúttlega illa gerðar, en þrátt fyrir það safnar salan á þeim þúsundum punda fyrir góðgerðarsamtök.

Hugmyndin kviknaði þegar Heckels var að reyna að hjálpa syni sínum að skrifa þakkarbréf og teiknaði fyrir hann mynd af fjölskylduhundinum Narla.

Hann hélt að það gæti veitt syni sínum einhvers konar innblástur fyrir hugmyndir en sagði að myndin hefði ekki verið eins vel heppnuð og hann ætlaði sér.

Heckels deildi teikningunni á Facebook og grínaðist með að hún væri til sölu fyrir rúmar 50 þúsund íslenskar krónur. Hann fékk viðbrögð sem hann bjóst alls ekki við þar sem fólk vildi endilega festa kaup á teikningunni.

Eftir þetta hefur hann teiknað yfir tvö hundruð gæludýramyndir og í kjölfar þess setti hann upp styrktarsíðu fyrir góðgerðarsamtökin Turning Tides, sem styðja við heimilislausa.

Ágóðinn fer til samtakanna og hefur hann hingað til safnað rúmum tveimur milljónum króna. Virkilega vel gert hjá þessum listamanni. Frábært að skapa eitthvað skemmtilegt og í leiðinni styrkja mikilvægt málefni. Listin er mögnuð!

Frétt frá Tanksgoodnews.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist