Tónlistarveisla í staðinn fyrir söngvakeppnina

Eggert Jóhannesson

Það dró til tíðinda á föstudaginn síðastliðinn þegar RÚV tilkynnti að Daði og Gagnamagnið myndu taka þátt fyrir Íslands hönd í Eurovision á næsta ári.

Vegna Covid er erfitt að skipuleggja stóra viðburði en Rúnar Freyr ræddi við þá Loga Bergmann og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum um tilvonandi tónlistarhátíð sem haldin verður í staðinn fyrir hina hefðbundnu söngvakeppni.

„Það verður engin söngvakeppni í þessari mynd sem við þekkjum en auðvitað verður blásið til sóknar með mikla tónlistardagskrá þar sem við verðum með skemmtun, tónlist og allt svoleiðis á þessum tíma sem söngvakeppnin ætti að vera á,“ sagði Rúnar.

Hann segir mjög mikilvægt að einhvers konar hátíð verði haldin þar sem söngvakeppnin er stærsti sjónvarpsviðburður landsins ár hvert.

„Við náttúrlega getum ekki bara hætt við hana og ekki verið með neitt í staðinn. Þetta er líka mikilvægt fyrir tónlistarbransann, grasrótina og lengra komna að fá þetta tækifæri og auðvitað fyrir áhorfendur.“

Rúnar segir að margar hugmyndir séu komnar niður á blað og líklegt sé að sjónvarpsáhorfendur fái að fylgjast með Daða semja lagið og fylgjast með honum ferðast auk þess sem margar fleiri hugmyndir sem tengjast gömlum eurovisionlögum séu í fæðingu.

Viðtalið við Rúnar má hlusta á hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist