Leituðu leiða til að halda upp á Halloween

Það er lítill hópur vaskra kvenna í Þorlákshöfn sem hafa tekið sig saman undanfarin ár og skipulagt Skammdegisbæjarhátíðina Þollóween.

Hátíðin er haldin vikuna fyrir Halloween en í ár reyndi aldeilis á hugmyndaflugið enda þurfti að útfæra allar skemmtanir með Covid í huga.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir er ein af skipuleggjendum hátíðarinnar og ræddi hún við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Þetta er þriðja árið í röð sem við gerum þetta, svona tökum vikuna með trompi og fögnum myrkrinu og ævintýrunum sem þar búa. Við erum hópur kvenna í þorpinu sem tökum okkur saman og þetta hefur líka tengst foreldrafélaginu í grunnskólanum, byrjaði svolítið þar og þetta er bara ógeðslega gaman. Við förum alveg hamförum í að búa til allskonar drasl og dót og hræðilegt skraut sem allir hafa gaman af,“ segir Ása.

Draugasaga og tónleikar í beinni útsendingu

Hún segir nefndina í ár hafa leitað leiða til þess að halda hátíðina og nota þær meðal annars samfélagsmiðla til þess.

„Leikfélagið í Þorlákshöfn ætlar að gæða draugasögu lífi í beinni útsendingu á Facebook-síðu okkar, síðan er draugahús og það er tíundi bekkur sem sér um það svo það er alfarið inni í skólanum. Svo ætlum við að hafa hræðilega tónleika á laugardaginn í beinni útsendingu,“ segir hún.

Þá verður einnig boðið upp á bílabíó á fimmtudaginn og myndirnar Hocus Pocus og Scream sýndar við smábátahöfnina.

Dagskrá Þollóween má finna á Facebook-síðu félagsins en þar verður einnig hægt að horfa á draugasöguna í beinni útsendingu á morgun. Tónleikarnir fara svo fram á Facebook-síðu Hljómlistarfélags Ölfuss en þar koma fram ýmsir tónlistarmenn úr Þorlákshöfn.

Viðtalið við Ásu Berglindi má hlusta á hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist