Fallhlífarstökk á uppblásnum gúmmíhring

Hugurinn ber okkur stundum á hina skemmtilegustu staði, þar sem við eigum það til að vera skýjum ofar þegar okkur líður vel.

Ég rakst hins vegar á ótrúlega skemmtilega frétt af hugrakkri konu sem var bókstaflega skýjum ofar þegar hún fór í fallhlífarstökk á uppblásnum gúmmíhring.

Konan heitir Robin Moore og starfar sem læknir á bráðamóttöku í Bandaríkjunum. Moore fór ásamt hópi fallhlífarstökkvara og ákvað að prófa að taka uppblásna hringinn með sér, sem maður hefur gjarnan séð í sundlaugum en ekki í háloftunum.

Tveir fallhlífarstökkvarar héldu í hringinn þar sem hún flaut á honum skýjum ofar með vindinn í andlitið, klædd í stuttbuxur og kúrekastígvél og leit út fyrir að vera algjörlega í skýjunum. Eftir smá tíma notaði hún svo fallhlífina sína til þess að komast til jarðar. Moore hefur stundað fallhlífarstökk heillengi og segir þetta vera það skemmtilegasta sem hún gerir.

Hún hefur stokkið hvorki meira né minna en 800 sinnum! Þvílík upplifun get ég ímyndað mér. Sjálf er ég örlítið lofthrædd en hef samt tekið þá ákvörðun að einn daginn muni ég kýla á fallhlífarstökk. Ég læt uppblásna hringinn þó bíða aðeins.

Frétt frá Goodnewsnetwork.mbl.is