Leystu öll vandamál og giftu sig í Covid

Ljósmynd: Unsplash/Drew Coffman

Covid hefur sett strik í alls konar reikninga. Eitt af því er þegar fólk er búið að skipuleggja afmæli eða brúðkaup og svo fer allt í steik. Það eru þó sumir sem ákveða að láta bara vaða og ein af þeim er Anna Margrét Einarsdóttir sem gifti sig í vikunni.

Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars slógu á þráðinn til Önnu og spurðu hana hvað hefði komið til.

„Það er nú eiginlega þannig að við höfum áður ákveðið að gifta okkur en við eigum son sem er í fótbolta í útlöndum og svo eigum við bara fullt af börnum. Einu sinni vorum við búin að panta sal og kokk og bjóða fullt af fólki en þá var bara mótið hans ennþá í útlöndum og við vissum það ekki. Þá var hann búinn að færa sig á milli landa frá Belgíu til Noregs og þá var víst norska deildin enn í gangi á þessum tíma þannig að við þurftum að hætta við,“ segir Anna.

Hún viðurkennir að þegar maðurinn hennar hafi svo farið að tala um að gifta sig hafi hún alltaf fengið smá kvíða.

„Hann sko býr til excel-skjal og er kominn með 120 manns á lista og búinn að ákveða hvað á að vera í matinn og ég fæ bara svona nettan kvíða. Þetta er ekki alveg fyrir mig, að plana svona stóra veislu. Svo mér datt í hug fyrir átta dögum, þá segi ég: Eigum við ekki bara að gifta okkur núna? Það eru allir á landinu, það eru allir heima, enginn er að fara neitt, það er Covid, enginn í fjölskyldunni með Covid og allir voru bara til í þetta. Svo við fórum bara í það að redda og græja og gera og svona en svo kemur náttúrlega babb í bátinn,“ segir Anna og útskýrir þá hvaða erfiðleikar hafi komið upp fyrir brúðkaupið.

Viðtalið við Önnu er hægt að hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist