Móðir Fjólu er með ólæknandi krabbamein

Mæðgurnar saman
Mæðgurnar saman Ljósmynd: Úr einkasafni

Fjóla Sigríður Stefánsdóttir hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika með móður sinni, Aðalheiði Vagnsdóttir, allt frá árinu 1995 þegar móðir hennar greindist með hvítblæði.

Fjóla segir að besta meðal sitt við vanlíðan og erfiðum tilfinningum sé að skrifa þær frá sér og að í kjölfar Covid hafi hún ákveðið að setja það niður á blað hvernig það sé að vera barn krabbameinssjúklings.

Fjóla Sigríður Stefánsdóttir.
Fjóla Sigríður Stefánsdóttir. Ljósmynd: Úr einkasafni

Ástæðurnar fyrir því að Fjóla ákvað að tjá sig um líðan sína núna segir hún í samtali við K100 vera nokkrar.

Meðal annars að mamma hefði aldrei komist í gegnum þetta nema með jákvæðni og að tala opinskátt um veikindin. Ég er mikill kvíðasjúklingur og þessi veikindi hafa byggt upp kvíðann minn mikið og á tímabili hugsaði ég ekkert um sjálfa mig og þar að leiðandi gat eg ekki verið til staðar fyrir mömmu, ég finn hvað það skiptir rosalega miklu máli að hlusta á líkamann sinn og sinna sjálfum sér svo maður geti verið til staðar fyrir sjúklinginn.

Hún segir það ekki sjalfgefið að hafa gott fólk i kringum sig þegar mikið bjátar á og hún hefði aldrei getað gengið í gegnum þetta allt ef hún hefði ekki maka á bak við sig sem styðji við hana. 

Fjóla deildi hugsunum sínum með vinum sínum á samfélagsmiðlum og gaf K100 góðfúslegt leyfi til þess að deila þeim.

„Þessi Covid tími er búin að vera rosalega erfiður og margir einir og leyfa sér að hugsa eða láta hugsanirnar ná sér. Mig langar að skrifa smá um það hvernig það er að vera dóttir krabbameinssjúklings og hvernig ég hef reynt að tækla það,“ segir hún.

Hjálpar henni að tala um hlutina

Fjóla segist alls ekki vilja neina vorkunn heldur hjálpi það henni að tala um hlutina og vonast hún til þess að geta hjálpað öðrum í sömu sporum með því að deila sinni reynslu.

„Árið 1995 fær mamma mín hvítblæði, ég man ekki mikið eftir því en ég man höfnunina sem mér fannst ég verða fyrir þegar mamma mín þurfti allt í einu að fara a spítala, hún var að skilja mig eftir. Þetta voru mjög slæm og erfið veikindi og mömmu vart hugað líf, en kraftaverkin gerast og hún sigraði hvítblæðið,“ segir Fjóla.

Hún segist hafa verið lengi að sætta sig við þá staðreynd að móðir hennar hafi skilið hana eftir en að lokum hafi hún gleymt því.

Veiktist aftur

Árið 2008 veiktist mamma hennar aftur og fékk krabbamein í ristilinn.

„Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar mamma sagði mér fréttirnar, ég varð eyðilögð ,reið og sár, ég hélt hún væri að deyja. Hún nær að sigra þetta verkefni með geislum og uppskurði.“

Fjóla segir þessi veikindi móður hennar þó aðeins hafa verið byrjunin á langri áfallasögu.

Móðir hennar hafi þurft að fara í marga uppskurði, Fleiri hundruð ferða til Akureyrar í krabbameinsmeðferð, tvær utanlandsferðir til Danmerkur og endalausar læknisheimsóknir.

„Núna árið 2020 eru þær fréttir að það er ekki hægt að gera neitt meira fyrir hana annað en að njóta með henni. Það er ótrúlegt hvað líkaminn venst því að fá áföll eftir áföll. Maður verður með tímanum ónæmur fyrir slæmum fréttum. Eftir allan þennan tíma held ég ennþá að mamma sé að fara að sigra krabbameinið, að við fáum símtal um að það sé farið. Því jú hún náði einhvern vegin alltaf að sigra og standa upp aftur og af hverju að hætta því núna?“

Fjölskyldan saman komin.
Fjölskyldan saman komin. Ljósmynd: Úr einkasafni

Þrátt fyrir að vera reið og sár fyrir þá erfiðleika sem fjölskyldan hefur þurft að ganga í gegnum segist Fjóla á sama tíma vera rosalega þakklát fyrir það að hafa gengið í gegnum þetta með móður sinni.

„Þessi tími er búin að vera rosalega, rosalega krefjandi og erfiður fyrir alla fjölskylduna. Þegar ég hugsa í gegnum allt ferlið þá skil ég ekki hvernig mamma hefur getað þetta. Ég hef þurft að minna mig mikið á það að hætta að vera svona reið út í lífið, ég þarf oft að setjast niður og minna mig virkilega á það hvað ég hef fengið mikinn tíma með henni þrátt fyrir alla hólana og lægðirnar, en það sem er nauðsynlegt fyrir alla til að reyna að ná að tækla hlutina sem best er að tala um þá og standa saman.“

Fannst hún þurfa að vera 200% til staðar

Hún segist oft hafa þurft að stoppa sjálfa sig af vegna þess að hún sé að fara fram úr sjálfri sér. Henni hafi fundist hún þurft að vera 200% til staðar.

„En eins og margir hafa rekið sig á þá getur maður ekki verið til staðar fyrir aðra ef maður getur ekki verið til staðar fyrir sjálfan sig.“

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist