Vill virkja menningarlíf miðbæjarins

Ljósmynd: Finni Karlsson

Góðan og gullfallegan daginn og gleðilegan föstudag. Nú er aldeilis viðburðarík vika að líða undir lok og helgin tekur okkur opnum örmum á óhefðbundinn hátt.

Mig langar til þess að hrósa þeim Finna Karlssyni og Geoffrey, gjarnan kenndir við Prikið, fyrir ofboðslega skemmtilegt og uppbyggilegt verkefni sem þeir voru að setja af stað.

Framtakið kalla þeir Sköpum líf í lokun þar sem markmiðið er að setja meira líf í miðbæinn á tímum sem þessum, þar sem lítið hefur verið um að vera og ástandið vægast sagt erfitt fyrir uppbyggingu í menningu og listum. Vonin er að virkja menningarlífið, reyna að finna not fyrir einhver af tómu rýmum Laugarvegsins og hjálpa fólki sem getur sameinast í því að hressa bæinn aðeins við og skapa verðmætar upplifanir.

Þeir eru opnir fyrir ýmsum pælingum og hugmyndum, en eru nú þegar byrjaðir að hengja upp „Sköpum líf í lokun“ plaköt sem hönnuð eru af listamanninum Geoffrey.

Það eru eflaust marga sem klæjar í fingurgómana yfir tilhlökkun til þess að skapa og koma með hugmyndir og miðbærinn okkar er svo mikilvægur vettvangur fyrir líf, gleði, fjölbreytni og það að geta hrist upp í hversdagsleikanum.

Mér finnst þetta algjörlega frábært og ég hlakka mikið til að fylgjast með þróun verkefnisins. Miðbæjarröltið er stór hluti af menningu Reykvíkinga og það er kærkomið að fá smá líf og fjör í hann!

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist