Skrúfaði frá vatninu og eyðilagði heimilið

Ljósmynd: Samsett

Kettinum Amber tókst að fylla heimili eiganda síns af vatni með því að skrúfa frá kranavatninu og loka niðurfallinu.

Eigandi Amber, Jasmin Stork, hafði skroppið út í búð að kaupa í matinn en þegar hún kom heim tók á móti henni vatn sem flætt hafði í gegnum stofuna.

Um leið og Jasmin sá vatnið vissi hún hvað hefði gerst en hún og kærastinn hennar höfðu nokkrum dögum áður verið að taka myndband af Amber vera að leika sér að því að skrúfa frá kranavatninu. Það sem hún vissi þó ekki var að Amber var líka búin að læra að loka fyrir niðurfallið.

„Um leið og ég gekk inn í stofuna vissi ég hvað hefði gerst. Ég hljóp upp og sá að vatnið var á fullu og að það lak út fyrir vaskbrúnina. Það var alls staðar,“ sagði Jasmin í viðtali við Metro.

Jasmin segir að þegar hún hafi borið sökina upp á Amber hafi hún ekki sýnt neina iðrun.

Amber fannst þetta frábært. Hún var í dyrunum sem skilja stofuna og eldhúsið að og lék sér hamingjusöm í vatninu, eins og þetta væri æðislega gaman. Engin iðrun,“ sagði hún.

Tjónið mun kosta eigendur Amber mikla peninga en þau hafa ekki enn getað metið nákvæma upphæð.
mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist