Segir fólk upplifa daglegt líf langveikra vegna Covid

Selma Klara og sonur hennar Brimir.
Selma Klara og sonur hennar Brimir. Ljósmynd: Úr einkasafni

„Mikið ofboðslega finnst mér sorglegt og leiðinlegt að sjá fullorðið fólk vera rífist á netinu yfir því hvar sé opið eða lokað þessa dagana, fólk er til dæmis að pressa á að líkamsræktarstöðvar séu opnar og um leið og þær opna þá mætir smitaðir einstaklingur í ræktina.“

Á þessum orðum hefur Selma Klara Gunnarsdóttir færslu á Facebook síðu sinni sem hún gaf K100 góðfúslegt leyfi til þess að deila.

Margar spítala heimsóknir að baki

Sonur Selmu Klöru Gunnarsdóttur, Brimir Hrafn, hefur glímt við mikil veikindi allt frá fæðingu. Selma hefur gengið með son sinn á milli fjölda lækna þar sem hann hefur gengist undir margskonar skoðanir, tilraunir og rannsóknir. Hann er meðal annars með alvarlegt fæðuofnæmi og hefur þurft að fá fæðu sína í gegnum sondu. Þá er hann á margskonar lyfjum við veikindum sínum og eiga þau mæðgin margar spítala heimsóknir að baki.

„Hann Brimir Hrafn minn hefur síðan um síðustu jól verið mikið einangraður vegna sinna veikinda eins og reglulega síðan hann fæddist en þessi vetur var einstaklega erfiður plús það að Covid er líka í gangi. Það sem margir átta sig ekki á sem eru að upplifa breytingar núna vegna Covid er að þetta er í raun heimur þess langveika, mikil einangrun og þurfa alltaf að fara varlega til þess að komast hjá því að fá flensu því venjulegt kvef fyrir þann veika getur auðveldlega orðið að slæmri lungnabólgu sem endar oft með innlögn inn á spítala,“ segir hún.

Lifa í stanslausum ótta og einangrun

Selma segir fólk því mögulega fá smá tilfinningu fyrir því hvernig foreldrum langveikra barna og langveikum líður oft á tíðum.

„Við lifum við sama ótta og sömu einangrun, við verðum líka þreytt oft á ástandinu og að hafa enga stjórn á því sem er að gerast eins og þið flest öll eruð að upplifa núna á þessum skrýtnu tímum.

Munurinn er hins vegar sá að flest ykkar munu fá líf ykkar aftur þegar tekist hefur að ná tökum á Covid því þetta er tímabil sem mun ganga yfir en líf okkar heldur áfram að vera svona! Við munum enn þurfa að vera jafn einangruð,“ segir hún.

Hlusta á reglur þríeykisins

Selma segir að þrátt fyrir að Covid gangi yfir muni sonur hennar enn missa úr skóla, af afmælum, tómstundum og fær sjaldan að hitta vini sína. Það sama eigi við um hana sjálfa.

„Ég vildi óska þess að allir myndu núna hugsa ögn lengra en bara um hvað þeir eru að missa af miklu með því að komast ekki í ræktina, eða pirrast yfir því að komast ekki í klippingu.

Ef fólk myndi bara hætta að rífast yfir því hvar er opið eða lokað og fara að hlusta á þær reglur sem þríeykið setur og treysta þeim fyrir að taka réttar ákvarðanir og þá munu þið á endanum losna frá öllum takmörkunum og fá líf ykkar aftur.

Ljósmynd: Úr einkasafni

Þegar allt kemst í fyrra horf þá hafa allavegana allir fengið smá upplifun af því að lifa við skert lífsgæði eins og langveikir búa alla tíð við og foreldrar langveikra barna. Ég vona að þetta muni fá fólk til þess að meta líf sitt betur og þakka fyrir að hafa góða heilsu,“ segir hún.

Selma bendir á að ástandið sem sé í gangi núna í heiminum sé ekki varanlegt. Það muni taka enda og það muni gerast fyrr ef allir hjálpist að.

„Er ekki betra að taka þetta í minni skrefum í staðin fyrir að slaka of mikið á og vera alltaf að herða reglurnar aftur og aftur?“

mbl.is