Fólk kaupir öðruvísi föt í Covid

Svava í 17
Svava í 17 mbl.is/Árni Sæberg

Svava Johansen, oftast kölluð Svava í 17, segir innkaup fólks öðruvísi á tímum Covid í viðtali við þá Loga og Sigga í Síðdegisþættinum.

Hún segir sölu á jakkafötum hafa róast töluvert og fólk kaupi frekar þægileg föt.

„Auðvitað finnum við fyrir því, við erum að selja öðruvísi. En ég verð nú samt að segja að það eru margir að gera vel við sig, fólk er auðvitað ekki að ferðast eins og áður,“ segir hún.

Svava telur jólagjafirnar í ár verða teygjanlegar buxur sem hægt sé að nota bæði hversdags ásamt því að klæða þær upp þegar fólk er að fara fínt.

Hún segir fólk kaupa sér meiri hversdagsfatnað en þrátt fyrir það gangi sala ágætlega.

„Það hefur verið náttúrlega svona, þegar það var lokað fyrr í vor þá fór allt niður og svo opnaðist og þá var mjög mikið að gera í sumar. Svo fer fólk oft í verslunarferðir á haustin en það er ekki núna. Við finnum fyrir því að fólk er ekkert að fara í innkaupaferðir í desember. En það er samt erfitt að reka verslanir því maður veit ekkert við hverju á að búast. Veit ekki hvort maður á að panta mikið eða draga saman,“ segir hún.

Viðtalið við Svövu má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is