Edda og Björgvin röfla og rifja upp gamla tíma

Ljósmynd: Skjáskot/Stöð 2

Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í henni Eddu Björgvinsdóttur leikkonu í Síðdegisþættinum í gær og ræddu við hana um glænýja sjónvarpsþætti sem hún og sonur hennar Björgvin Franz leikari tóku þátt í.

Þættirnir heita Ísbíltúr með mömmu og eru þeir svokallaðir raunveruleikasjónvarpsþættir þar sem mæðginin fara á rúntinn saman og rifja upp gamla tíma.

„Þetta er stutt en svolítið skondin saga. Málið er að við Björgvin erum bara í eðli okkar dálitlir skríplar, við fíflumst mikið þegar við erum saman og höfum rosalega gaman af því og verðum bæði bara svolítið fimm ára dálítið stundum sko,“ segir Edda um hugmyndina að upphafi þáttanna.

Mæðginin voru saman að viðra bíl föður Eddu þegar Björgvin ákvað að taka upp lítið myndband þar sem þau voru bæði að fíflast á rúntinum saman.

„Þetta vakti svona gríðarlega athygli og meðal annars fannst Stöð 2 þetta bara alveg rakið að prófa að setja myndavélar í bílinn og leyfa okkur einhvern veginn svolítið frítt spil. Þetta er raunveruleikasjónvarp og við héldum fyrst kannski að við þyrftum að fara að skrifa eitthvað en Björgvin horfði bara djúpt í augun á mér og sagði: „Nei veistu mamma, það er til dæmis einn þáttur bara nóg þegar ég sæki þig til þess að bjóða þér í bíltúr og þú kemur með átta töskur, í þremur þeirra eru albúm og svo ertu með raftæki í nokkrum og svo ertu með ýmislegt annað, gamlar bleyjur frá því að Róbert var lítill. Þetta til dæmis er mjög gott raunveruleikasjónvarp myndi ég segja.““

Edda lýsir þáttunum þannig að mæðginin séu tvö að röfla, skoða myndir og rifja upp gamla tíma. Hún segir þau hafa haft æðislega gaman af og vonast til þess að öðrum finnist þetta jafn skemmtilegt.

Viðtalið við Eddu má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is