„Ofurkona getur líka sofið yfir sig“

Björgheiður Margrét Helgadóttir verkefnisstjóri hjá Alvotech og fjármálastjóri hjá UAK var í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar í gærmorgun þar sem hún ræddi um hugtakið „Ofurkonan.“

Hvað er ofurkona?

„Í gömlu skilgreiningunni þá er ofurkona best í öllu í lífinu, er í flottri vinnu, helst í skóla líka, hún er að reka fullkomið heimili, börnin fá aldrei skjátíma, mætir alltaf í fjallgöngu og „happy hour.““ Sagði Björgheiður.  

Viðburðurinn „Ofurkonan þú“ var haldinn í gær og komu þar fram sérfræðingar í streitu, svefni og kulnun og einnig konur sem hafa reynslu af þessari pressu og því að lenda í kulnun og hvað hún hefur í för með sér.

„Kulnun er í rauninni það sem við köllum „burn out.“ Í gamla daga þegar þú varst úti á túni þá var það meira líkamlegt álag í dag er álagið svo miklu meira andlegt. Öll þessi pressa að vera svona fullkomin og sinna öllum þessum hlutum. Leiðir til kulnunar koma til vegna þess að þú ert í raun að gera allt of margt og reyna að vera fullkomin í öllu, það er óraunhæft,“ sagði hún.

Björgheiður segir pressuna vera samfélagslega, komi í gegnum samfélagsmiðla og frá konunum sjálfum.  

„Konur þurfa að finna hver sín mörk eru. Sumar konur geta haldið fullt af hlutum á lofti en sumar ekki og þá þurfa þær að geta áttað sig á því hvenær þær þurfa að segja stopp,“ sagði Björgheiður og bætti við: „Ofurkona getur líka sofið yfir sig eða gleymt að senda barnið með hátíðarnesti í skólann. Ofurkonan er allur skalinn.“

Viðtalið við Björgheiði má hlusta á hér fyrir neðan:

Viðburðinn má finna á Facebook síðu Ofurkonan þú.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist